151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:18]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég missti því miður af 2. umr. um þetta mál og ætla því að reyna að taka saman það sem ég hef um það að segja á þeim tíma sem gefst núna. Svo við byrjum á jákvæðu hliðunum þá snýst þetta mál að einhverju leyti, alla vega að nafninu til, um að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu. Það er ágætismarkmið og allir geta verið sammála um að það er hið besta mál. Ef málið snerist bara um þetta þá væri kannski ekkert tilefni til þess að ræða það neitt frekar í 3. umr. Undir eðlilegum kringumstæðum í réttarríki er eðlilegt að ekki sé viðhöfð tvöföld refsing en höfum samt í huga að tvöföld refsing er ekki alveg það sama og það að rannsókn á stöku máli eigi sér stað innan einnar stofnunar og færist svo til annarrar þegar á líður. Það er ekki tvöföld refsing, það er ekki einu sinni tvöföld rannsókn heldur er það yfirflutningur eftir því sem eðli máls breytist.

Gagnrýni mín á þetta frumvarp snýst því aðallega um tvennt: Annars vegar að rökstuðningur fyrir þeirri aðgerð að leggja niður skattrannsóknarstjóraembættið og búa til deild sem gegnir einhverjum sambærilegum hlutverkum innan skattstjóraembættisins er ekki nægilega sterkur, og hins vegar að líkur eru til þess að þetta dragi úr getu stofnana ríkisins til að rannsaka skattalagabrot og þá kannski aðallega þau sem stærri eru. Það má taka það fram að skattalagabrot eru mjög mörg í flestum ríkjum, en flest eru þau smá og yfirleitt hægt að leysa þau með tiltölulega einföldum hætti. En þau brot sem eru stærri og flóknari eru þau sem yfirleitt er erfitt að elta uppi og vinna úr. Fyrir vikið er það ekki óalgengt að þeir sem standa í stærri skattalagabrotum komist hreinlega upp með það. Meira að segja er til einhver lína, einhver punktur, þar sem það fer hreinlega að borga sig fyrir fólk að taka áhættuna á stóru broti, sé það með nægilega flókið net fyrirtækja og álíka á bak við sig, sér í lagi ef það fer yfir landamæri. Ég ætla kannski að tala aðeins meira um þann þátt á eftir.

Tölum aðeins um rökin fyrst. Rökin sem veitt eru fyrir því að gera þetta eru skilvirkni og sparnaður, en á sama tíma á það að skila einhvern veginn meiri og betri getu hjá sameinaðri stofnun. Hægt er að taka undir það að einhvers konar samvinnukraftur verður til þegar fólk vinnur innan sömu stofnunar, en ég veit ekki til þess að það sé endilega erfitt fyrir fólk að eiga samskipti þvert á stofnanir. Meira að segja er það mjög algengt í stofnanaverki ríkisins að stofnunum sé beinlínis gert að eiga mikla og nána samvinnu. Hugsanlega hefði verið hægt að leysa úr þeim þætti þannig. Hvað sparast þá? Hver er sparnaðurinn? Er það yfirbygging? Jú, kannski, að einhverju leyti. En væri þá ekki hægt að t.d. sameina launadeildir og eitthvað álíka, minnka yfirbyggingu með þannig tilfærslum og aukinni samvinnu? Er verið að spara húsaleigu? Ja, kannski, kannski ekki. En rökin um skilvirkni og sparnað geta í sjálfu sér ekki verið neitt rosalega sterk nema um sé að ræða einhvers konar starfsmannasparnað og þá er ekki hægt að segja nema að mjög takmörkuðu leyti að það verði meiri geta til staðar. Það er öllum augljóst að það að fækka fólki hefur áhrif á hvað er hægt komast yfir mikið af verkefnum. Þeim verkefnum fækkar nema töluverð sjálfvirknivæðing komi á móti. Reyndar er það alveg sérkapítuli og alveg þess virði að ræða hversu gott skattkerfið okkar er varðandi tölvutækni og sjálfvirknivæðingu og hvað vantar mikið upp á til að hægt sé að greina augljós skattundanskot með einhvers konar tölvugreiningaraðferðum.

En hitt í þessu máli er að þetta er hluti af niðurlagningarmynstri sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir fór yfir í ræðu sinni rétt áðan þá er búið að leggja niður þó nokkrar stofnanir og búið að veikja margar aðrar á þessu kjörtímabili. Það má nefna Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem kann ekki að hljóma eins og mikil eftirlitsstofnun í hugum margra, en það er samt þannig að hlutverk hennar í efnagreiningum og byggingarrannsóknum hafði töluvert vægi þar. Sömuleiðis má nefna Neytendastofu, sem hafði ákveðið eftirlitshlutverk gagnvart t.d. leikföngum. Það hefur verið fært undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem er kannski ekki sérhæfð í því. Það er búið að leggja niður Fjármálaeftirlitið sem sjálfstæða stofnun, búið að gera það að undirdeild undir Seðlabankanum með einhvers konar galdraaðgreiningu þar innan húss. Þetta fyrirkomulag á eftir að sanna sig. Margt af því sem varað hefur verið við í öllum þessum niðurlagningum eða sameiningum hafa menn annaðhvort ekki fengið tíma til að skoða eða að það hefur reynst illa. Í svona deilum snýst þetta kannski fyrst og fremst um spurninguna um hvort við eigum að vera með fáar og mjög stórar stofnanir sem eru í rauninni lítið sérhæfðar, ná yfir mjög breið málasvið, eða mjög margar litlar og kannski eftir því máttlausar stofnanir. Auðvitað er rétt svar einhvers staðar þar á milli.

Það er auðvelt að segja: Færum bara öll skattalagabrot, sér í lagi þau stóru, undir héraðssaksóknara. En héraðssaksóknari er með mjög vítt málefnasvið á sinni könnu og ef ekki eykst stuðningur og styrking á héraðssaksóknaraembættinu sem fylgir þessu, sem það gerir ekki, herra forseti, er hætt við því að þetta verði bara enn einn málaflokkurinn sem er vanfjármagnaður og hefur ekki nægilega mikinn mannafla og fjármuni á bak við sig. Höfum í huga að komið hafa kvartanir frá héraðssaksóknaraembættinu um að það séu ekki nægilega miklir peningar til staðar til þess að rannsaka t.d. Samherjamálið nægilega vel. Það er áhyggjuefni, ekki síst þegar namibískum stjórnvöldum, sem hafa töluvert minna fjármagn milli handanna en íslensk stjórnvöld, virðist takast ágætlega að rannsaka það mál.

Setjum þetta í samhengi við stærri línur. Aukin alþjóðavæðing á heimsvísu hefur gert það að verkum að ríki og löggæsla eru enn þá rosalega föst innan landamæra sinna meðan skattalagabrot og skattundanskot og hvers lags önnur kerfislæg misnotkun á gloppum í regluverki milli landa hefur aukist töluvert mikið. Það er orðið þannig að fyrirtæki starfa mjög oft á heimsvísu til að hagræða skattamálum hjá sér. Stundum er það á fullkomlega löglegan hátt og jafnvel á fullkomlega eðlilegan hátt ef þau eru með starfsemi í mörgum löndum, en þegar fyrirtæki eru komin með fyrirtæki og dótturfélög og jafnvel móðurfélög í skattaskjólum sem hafa beinlínis þann tilgang að komast hjá því að minnka skattskyldu hérlendis og jafnvel annars staðar þá er það orðið vandamál sem stofnanir þurfa að hafa burðargetu til að rannsaka.

Nú eru um fimm ár frá því að Panama-skjölin voru birt. Panama-skjölin voru áhugavert verkefni. Ég vann að rannsókn þeirra í tæpt ár fyrir birtingu þeirra. Síðustu fimm ár hafi leitt það svolítið í ljós að víðast hvar í heiminum er lítil geta til að rannsaka þessi mál eða alla vega lítill áhugi. Það er ekki ólíklegt að þetta áhugaleysi og getuleysi fari saman. Ef stjórnvöld í — maður vill kannski ekki nefna einhver tiltekin lönd í þessu samhengi, en ef maður ímyndar sér stjórnvöld í einhverju af þeim fjölmörgum löndum sem fjallað var um í Panama-skjölunum þar sem var fjallað um valdamikla ráðamenn og þau hefðu kannski áhuga á því að verja hagsmuni þeirra valdamiklu ráðamanna fram yfir t.d. hagsmuni almennings, þá væri eitt augljóst og eðlilegt skref til þess að verja þá afleitu hagsmuni að leggja t.d. niður embættið sem hefur með rannsókn slíkra skattalagabrota að gera. Það væri bara rosalega fín leið, sérstaklega ef verkefnunum yrði að nafninu til mokað yfir í aðra stofnun sem á jú að einhverju leyti að fara með rannsókn slíkra mála en hefur sannarlega ekki nægilega fjármuni eða burði til að ná yfir allt sem henni er gert að ná yfir, jafnvel þó að hún hafi fullan og góðan ásetning um að gera það.

Þetta mynstur er skaðlegt. Við vitum að það er skaðlegt. Það eru dæmi hér á landi um að það hafi verið skaðlegt. Það eru dæmi erlendis frá um að þetta hafi verið skaðlegt. Það er búið að skrifa heilar bækur um það hvað það er mikill skaði að því að veikja eftirlitsgetu ríkja. Þegar við erum að setja lög þá verðum við að geta fylgt þeim eftir. Ef við fylgjum þeim ekki eftir þá eru þau í besta falli tilmæli. Það er út af þessu sem ég segi að rökstuðningurinn fyrir þessari aðgerð er ekki nægilega sterkur. Ef skilvirkni og sparnaðar og aukinn kraftur ætti að vera raunin þá hefðu fylgt þessu aðgerðir til að styrkja héraðssaksóknara, til að styrkja skattstjóraembættið. Það vantar. Það er einfaldlega þannig.

Ég veit ekki hvað er hægt að segja meira um þetta annað en að ég er fyrir mitt leyti orðinn hundleiður á ótrúlega aumum tilraunum þessarar ríkisstjórnar til að veikja allt eftirlitskerfi ríkisins. Ég er orðinn hundleiður á allri þessari skemmdarverkastarfsemi sem er í gangi gagnvart stofnunum ríkisins og verði ekki farin önnur leið þá held ég að þetta eigi eftir að valda enn meiri skaða á næstum árum. En nú er kosningaár. Kannski er hægt að snúa af þessari afleitu braut.