151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta frumvarp er af tvennum toga, felur tvennt í sér, eins og hv. þingmaður kom að í upphafi máls síns. Annars vegar eru breytingar vegna tvöfaldrar refsingar sem eru viðbrögð við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu og hins vegar breytingar á stofnanafyrirkomulagi og málsmeðferð skattalagabrota.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann taki ekki undir það með mér hvað það er ruglandi að þegar hv. stjórnarþingmenn mæla þessu máli bót þá leggi þeir svo mikla áherslu á að hér sé verið að koma í veg fyrir tvöföldu refsingarnar. Það er bara þannig að stofnanafyrirkomulagið hefur ekkert að gera með tvöfalda refsingu, ekki neitt. Það er sjálfstæð ákvörðun. Mér finnst eins og hv. stjórnarþingmenn leggi áherslu á viðbrögð við dómi Mannréttindadómstólsins til þess að menn séu ekki að gagnrýna stofnanabreytinguna of mikið. Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort hann taki ekki undir þetta með mér og hvort honum finnist það ekki vera gagnrýnivert að stjórnarliðar skuli beita þessum málflutningi.