151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:34]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er fullkomlega auðvelt að taka undir þessi ummæli hv. þingmanns. Það er kannski líka athugunarvert að frumvarpið heitir tvöföld refsing. Þarna eru nú einhver fleiri orð, en það er ekkert í heiti frumvarpsins um að það snúist um að leggja niður stofnun. Maður hefði haldið að þegar verið er að ákveða heiti á frumvarp ættu stærstu áhrifapunktarnir að fylgja, það sem málið hefur mest áhrif á. Það er kannski minni háttar atriði í samhengi við það stóra, sem er, einmitt eins og hv. þingmaður segir, að verið er að skauta fram hjá því í umræðunni af hálfu meiri hlutans að þetta mál snýst í rauninni að mjög litlu leyti um að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu en að mjög miklu leyti um að breyta stofnanafyrirkomulagi skattrannsókna.

Svo maður segi nú eitthvað um þessa tvöföldu refsingu og setji það í samhengi þá er mjög áhugavert að lesa síðari umsögn héraðssaksóknara í þessu máli vegna þess að þar er einmitt varað við því að raska einhverju sem gæti breytt fyrirkomulagi þeirra mála sem eru í vinnslu. Ég hef reyndar ekki almennilega áttað mig á því hver lausnin þar er, önnur en sú að gera bara helst ekki neitt, alla vega í bili. Mér finnst alla vega ekki nógu skýrt að búið sé að koma til móts við þessar athugasemdir frá héraðssaksóknara, sem hljóta að vera ákveðið lykilatriði í þessari umræðu.