151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom í ræðu sinni líka inn á rannsókn á Panama-skjölunum. Við nutum þess vafasama heiðurs að eiga heimsmet í fjölda kennitalna í þeim en við áttum sannarlega ekki heimsmet í því að rannsaka skattalagabrotin. Það síðasta sem ég frétti af Panama-skjölunum var að enn stóðu um 200 mál órannsökuð og skattrannsóknarstjóri og Skatturinn höfðu ekki mannafla til að fara almennilega í gegnum þau. Það sama má segja um fjárfestingarleið Seðlabankans. Skattrannsóknarstjóri hafði ekki fjármuni og mannafla til að fara almennilega í gegnum það mál. Héraðssaksóknari hefur ekki mannskap, og hefur sagt það í fjölmiðlum, eða bjargir til þess að rannsaka hratt og vel Samherjaskjölin. Ég var að fletta fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 og þar er líka yfirlit yfir árið 2021. Þar er hvergi gert ráð fyrir þessum breytingum. Það er ekki gert ráð fyrir því að styrkja eigi embættin, hvort sem það er héraðssaksóknari, skattrannsóknardeild innan Skattsins eða Skatturinn í heild. Ekki er gert ráð fyrir því að þessar breytingar muni kosta eitthvað. Síðan halda menn því fram hér að með þessum breytingum sé verið að styrkja skattrannsóknir á Íslandi. Það eru þvílík öfugmæli. Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort hann taki ekki undir það með mér.