151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:38]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski ágætt að ég taki það fram að þátttaka mín í rannsóknum á Panama-skjölunum sneri að ýmsum löndum, Rússlandi, Aserbaídsjan, Tékklandi, Úkraínu og fleirum, en ekki að Íslandi. Og það var svolítið áhugavert og kom mér á óvart daginn sem þetta var birt hversu margir Íslendingar voru í þessum skjölum, hversu útbreitt og víðfeðmt vandamálið væri í ekki stærra ríki en þessu. Flest málin sem komu upp á Íslandi voru vissulega töluvert smærri í sniðum en t.d. í Rússlandi eða Úkraínu þar sem fólk var með milljarða dollara á aflandsreikningum, hér á landi hljóðaði það stærsta sem ég veit um upp á nokkrar milljónir dollara. Brotin eru vissulega stærri erlendis og áhuginn á því að sporna við þeim kannski minni í löndum sem hafa vafasamari lýðræðishefð en Ísland, en það er kannski einmitt af þeirri ástæðu sem Ísland ætti að standa sig betur. Ég hef heyrt sömu tölu og hv. þingmaður, að um 200 mál standi út af. Ég get ekki staðfest það, ég hef ekki aðgang að betri gögnum, en ef það er tilfellið ætti umræðan einmitt helst að snúast um að styrkja þessar stofnanir, styrkja skattrannsóknarstjóraembættið, þannig að hægt sé að klára þessi mál. Nú er ég kannski að afhjúpa vanskilning minn á því hvernig þessum málum er háttað en ég ætlast svolítið til þess að Ísland sé hreinlega betra þegar kemur að svona málum en Rússland og Aserbaídsjan, með fullri virðingu fyrir þeim ágætu löndum. Það hlýtur að vera að það sé rétt leið að styrkja þessar stofnanir frekar en að veikja þær.