151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:41]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar til að byrja ræðu mína á því að hrósa hv. þingmönnum Oddnýju Harðardóttur og Smára McCarthy fyrir að standa vaktina í þessu máli og fyrir nefndarálit þeirra sem er vel unnið, greinargott og skýrt og kjarnar í raun og veru um hvað þetta mál snýst, greinir kjarnann frá hisminu, nefnilega að hér er verið að veikja eftirlitsstofnanir sem og rannsóknir á skattsvikum sem sannarlega hefur sýnt sig með óhrekjanlegum hætti að þarf þvert á móti að efla hér á Íslandi.

Í frumvarpinu eru lagðar til veigamiklar breytingar, eins og rakið hefur verið í ræðum þingmanna, á stofnanafyrirkomulagi annars vegar og málsmeðferð skattalagabrota hins vegar. Það er gríðarlega mikilvægt að Alþingi gefi frá sér skýr skilaboð um að hér verði lögð þung áhersla á að sporna við skattundanskotum. Eins og kemur fram í umsögn skattrannsóknarstjóra, og 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar bendir á í sínu nefndaráliti, þá hafa áherslur Alþingis um áratugaskeið á baráttu gegn skattundanskotum, eflingu skattrannsókna og aukið sjálfstæði skattrannsóknarstjóraembættisins gegnt þýðingarmiklu hlutverki í að auka sýnileika og haft varnaðaráhrif í málaflokknum. Það er ótrúlega mikilvægt að halda áfram í sömu átt og á sömu braut og sú nauðsyn kallar á styrkingu og eflingu.

Það er líka mjög áhugavert, sem fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, að ekki hafi verið metnir kostir sameiningar embættisins við Skattinn á móti kostum þess að skattrannsóknir séu á hendi sjálfstæðs embættis. Hvers konar vinnubrögð eru það, herra forseti, þegar farið er fram með svona gríðarlega mikilvægt frumvarp, sem að upplagi byggist á dómum Mannréttindadómstóls Evrópu, að heimavinnan sé ekki unnin og metnir kostirnir við sameiningu embættanna? Það er ámælisvert, herra forseti, að sú grundvallarvinna sé ekki unnin.

Hér er líka farið fram með, eins og hv. þingmenn hafa komið að í sínum ræðum, einhvers konar hvata um pólitíska sýn frekar en um nauðsynina, þ.e. að veikja eftirlitsstofnanir og leggja niður stofnanir, sameina þær við aðra, fella inn í aðrar stofnanir, til að geta í raun og veru hakað við í excel-skjalinu, líkt og gerðist í málefnum Nýsköpunarmiðstöðvar, án þess að nægjanleg grundvallarrannsóknar- og greiningarvinna liggi fyrir. Það er ekki góð stjórnsýsla og það er ekki góð pólitík og það er ámælisvert og gagnrýnisvert.

Frumvarpið er óskýrt og lykilspurningum um hver eigi að rannsaka alvarleg skattaafbrot er ekki svarað í frumvarpinu. Það er óþægilegt, herra forseti, þegar lagt er fram viðlíka mikilvægt frumvarp, að þá skuli vakna spurningar um það hvort ætlunin sé að hverfa frá gildandi fyrirkomulagi þar sem eiginleg rannsókn fer fram hjá skattrannsóknarstjóra og fela hana héraðssaksóknara eða hvort ráðgert sé að hin eiginlega rannsókn verði áfram framkvæmd hjá skattrannsóknarstjóra eða hvað. Óskýrleiki um viðlíka alvarleg mál er einfaldlega ekki boðlegur.

Það er líka því miður þannig að með þeirri breytingu að skattrannsóknarstjóri leggi á stjórnvaldssektir sem kæranlegar verði til yfirskattanefndar, er það mat umsagnaraðila að umtalsvert færri mál muni sæta ákærumeðferð en nú er. Því er verið að milda til muna mat á alvarleika brota og milda refsingar við brotum gegn skattalögum frá því sem nú er. Er það í takt við þær uppljóstranir sem orðið hafa í íslensku samfélagi undanfarin ár? Er það í takt við það sem kom fram í Panama-skjölunum? Er það í takt við alþjóðlega vitundarvakningu í þá átt að það þurfi að uppræta skattaafbrot, skattundanskot? Nei, ég myndi ekki telja það og 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur ekki heldur að svo sé.

Það er grundvallarþýðing varðandi möguleika þeirra sem þurfa að rannsaka skattundanskot að þeim séu búnir skýrir möguleikar til þess samkvæmt lögum. Það er ekki bara einhver tilfinning þingmanna minni hlutans að hér sé ekki verið að fara rétta leið heldur er vitnað í skýrslur sem hafa verið gefnar út og fjalla um það að færa ákæruvaldið til skattrannsóknarstjóra. Þar á meðal er stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á ríkislögreglustjóra frá árinu 2006 þegar saksókn efnahagsbrota heyrði undir hann. Sömuleiðis verkefnisstjórn um breytingar og umbætur í skattkerfinu frá 2016 sem komst að svipaðri niðurstöðu og fyrri skýrsla um tíu árum fyrr, að til að koma í veg fyrir tvíverknað og stuðla að styttri málsmeðferðartíma sé brýnt að skapa betri samfellu og þunga í rannsókn alvarlegra skattalagabrota. Ég er hjartanlega sammála þingmönnunum tveimur, Oddnýju Harðardóttur og Smára McCarthy, að þau sjónarmið eiga sannarlega við í dag. Það er líka einu sinni svo að skattrannsóknarstjóri hefur yfir að ráða þekkingu og reynslu til að rannsaka sakamál af þessu tagi. Hún er til staðar. Alþjóðlegar tengingar, alþjóðlegt samstarf, reynsla og þekking.

Það er líka vert að minna á að það þarf sérþekkingu og sérhæfingu til þess að rannsaka og sakfella í skattalagabrotum. Það er skilvirkara að einn og sami aðilinn annist hvort tveggja. Það tíðkast til að mynda í löndum eins og Þýskalandi. Það þarf heldur ekkert, herra forseti, að minna á það hvernig skattalagabrot tengjast öðrum afbrotum, peningaþvætti til að mynda. Það er þekkt og kemur fram í skýrslu fjármálaaðgerðahópsins og áhættumati ríkislögreglustjóra. Þannig að alvarleiki þessara brota er mikill og tengist líka öðrum afbrotum.

Það er líka áhugavert að í skýrslu starfshóps á vegum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, skýrslu sem ráðherra óskaði eftir að yrði gerð í kjölfar uppljóstrana Panama-skjalanna, og var skilað í september 2016 en ekki birt fyrr en eftir þingkosningar voru afstaðnar 2017, er verið að greina þá stökkbreytingu sem varð á flæði fjár héðan frá Íslandi til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Þeir Íslendingar sem hafa verið í aðstöðu til þess hafa frá fornu fari sumir hverjir leitað leiða til þess að flytja fé úr landi, ýmist til þess að forðast skattgreiðslur, leyna auðlegð sinni eða firra sig þeirri gengisáhættu sem fylgir íslensku krónunni.“

Í skýrslunni kom fram að fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldaðist, herra forseti, frá árinu 1999 og fram að hruni. En því miður hefur lítið sem ekkert verið gert til að endurheimta þá tugi milljarða sem skotið var undan með þessum hætti eða í raun og veru girt fyrir með afgerandi hætti að þetta geti gerst aftur.

Það er því dapurlegt að sjá hér þetta frumvarp sem hefði verið einstaklega gott tækifæri til að bregðast við dómi Mannréttindadómstólsins, nýta ferðina til að tryggja varnir gagnvart skattundanskotum og styrkja þær eftirlitsstofnanir sem hafa burði, reynslu og þekkingu til þess að inna af hendi áfram á einum stað rannsóknir í þessum veigamikla og mikilvæga málaflokki sem skattundanskotin eru. Við hljótum eftir atburði síðustu ára að vilja gefa skýrari skilaboð en þau sem er að finna í þessu frumvarpi um að skattundanskot séu ekki í boði á Íslandi og við ætlum ekki að búa svo um hnútana hér að Ísland muni bíða annan álitshnekki á alþjóðavísu eins og Panama-skjölin voru á sínum tíma, Tortóla Norður-Atlantshafsins, viljum við vera það? Nei, fyrir utan allan þann skaða fyrir íslenskt þjóðarbú að missa alla þessa fjármuni úr landi sem betur gætu gagnast við uppbyggingu okkar samfélags, uppbyggingu innviða, velferðarkerfisins, heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins o.s.frv.

Í staðinn fyrir að láta þetta frumvarp renna í gegn eins og ekkert sé og halda áfram á þeirri vegferð að draga úr rannsóknum og eftirliti skulum við frekar fara í þá vegferð að styrkja og efla þau tæki og tól sem við höfum þegar kemur að því að girða fyrir skattundanskot og skattalagabrot.