151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eftir að hafa hlustað á þessa ræðu á ég í miklum erfiðleikum með mig. Það er við þessar aðstæður sem hrokinn getur blossað upp í venjulegu fólki. Ræðan var uppfull af vanþekkingu, verið er að blanda ólíkum hlutum saman, en látum það liggja milli hluta. Ég vona að mér hafi misheyrst í ræðunni þegar hv. þingmaður sagði — eða einhvers misskilnings gæti, annaðhvort hjá mér eða hv. þingmanni, um mikilvægu sérhæfinguna í þessum málaflokki — að sami aðilinn færi með ákæruvald og sakfellingar. Ég trúi ekki öðru en að það hafi verið mismæli. En ef svo er ekki vil ég fá nánari útskýringar á því. Ef við erum komin þangað erum við komin í fullkomið óefni.

Svo er alveg með ólíkindum að þurfa að hlusta á það að ólíkum málum sé blandað í þetta, eins og verið sé að veikja eftirlitið. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvaða stofnun eigi að sjá um ákæruvald og hvernig skattrannsóknum skuli háttað en enginn getur sagt með neinni sannfæringu eða rökum að þetta fyrirkomulag veiki skattrannsóknir. Það hefur aldrei staðið til. Þetta er unnið af sérfræðingum, eingöngu til þess að gera skattrannsóknir skilvirkari og markvissari.