151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum.

373. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir sérstökum vonbrigðum með málflutning Samfylkingarinnar og Pírata í þessu máli. Mér finnst hann einkennast af alveg ótrúlegri sýndarmennsku til þess eins að slá ryki í augu fólks og láta að því liggja að hér séu stjórnarflokkarnir að veikja skatteftirlit og koma mönnum undan réttvísinni, sem er öðru nær. Það sem verið er að gera hér, og var gert í upphafi, er að bregðast við því sem lengi hafði legið fyrir, og hafði verið gagnrýnt, að í núverandi fyrirkomulagi væri þessi tvöfalda refsing. Það væru ómarkvissar rannsóknir, óskilvirkar og enginn vissi hvað hinn væri að gera. Þess vegna var ákveðið, eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, að laga þetta kerfi og bæta. Þess vegna var farið í það að styrkja eftirlitið og rannsóknir hjá skattyfirvöldum, sem er auðvitað stóra atriðið — flest mál eru þaðan, koma þaðan og er lokið þar — að styrkja þá stofnun til að sinna eftirliti og þeim rannsóknum sem þarf að sinna til að geta sinnt því eftirliti. Önnur mál sem teljast meiri háttar brot þurfa að fara í sakamálameðferð og það er gert hjá ákæruvaldinu. Það er ekki gert innan einstakra stofnana, hvorki hjá Skattinum, Fjármálaeftirliti Seðlabanka, Samkeppniseftirlitinu né Landhelgisgæslu eða hvað sem við nefnum. Það eru aðrir sérfræðingar sem sjá um það.

Auðvitað byggist það á gögnum þessara stofnana eins og Skattsins og skattrannsóknarstjóra, sem þar er aflað sem verða hluti af rannsóknargögnum. Í þeim brotum þar sem um er að ræða hegningarlagabrot, þegar skattalagabrot eru hegningarlagabrot, eru stórfelld brot, þá eru iðulega önnur brot þar með en brot á skattalögum. Það eru brot á peningaþvætti, það eru brot á ýmsum öðrum lögum sem er auðvitað ekki á færi skattrannsóknarstjóra. Þess vegna er bara verið að slá ryki í augu fólks með því að leggja hér til að skattrannsóknarstjóri fái ákæruvald í sínar hendur í stærri og meiri skattalagabrotum. Það er svo fráleitt að ætla sér að fara þá leið vegna þess að málsmeðferðir fyrir dómi eru ekki á færi einstakra starfsmanna í stofnunum ríkisins. Það er mikil sérhæfing.

Þess vegna er það grátlegt og eiginlega kvalafullt að horfa á og lesa þessa tillögu Samfylkingar og Pírata, (RBB: Hvaða, hvaða.) því að þetta er svo dramatískt. (Gripið fram í: Já … dramatískt.) Að detta í hug að halda því fram að verið sé að veikja eftirlit með Skattinum með þessum hætti er líka fullkomlega fráleitt. Það er auðvitað verið að styrkja stofnunina með því að sameina Skattinn og skattrannsóknina eins og áður var, það var bara rannsóknardeild hjá Skattinum fyrir 1997 eða hvenær sem því var breytt í sérstaka stofnun. Að hafa eintómar litlar stofnanir úti um allan bæ að sinna sömu hlutverkum og aðrir geta sinnt í staðinn fyrir að sameina þær, er auðvitað til að gera þetta allt ómarkvissra, óskilvirkara og lélegra í alla staði. Við eigum að nýta skattrannsókn og skatteftirlit innan sömu stofnunar. Það gerir ekkert annað en að styrkja þetta. Það styrkir þessa stofnun til að tryggja að álagningin sé rétt og að allir greiði rétta skatta. Um það snýst þetta. Þetta snýst ekki um neitt annað.

Síðan eru auðvitað slík mál að menn eru í skipulögðu undanskoti, eru í raunverulegum brotum og brotastarfsemi sem marga þarf til, margs konar önnur brot. Þau verða ekki afgreidd hjá Skattinum eða skattrannsóknastjóra með ákæruvaldi. Það er af og frá.

Í mínum huga er þetta frumvarp eitthvert besta frumvarp sem komið hefur fram lengi þar sem má segja að séu réttarbætur, verulega góðar réttarbætur, þar sem við getum gengið út frá því sem vísu að málsmeðferð verði réttlát gagnvart þeim sem eru sakaðir. Hún verður eðlileg, hún verður markvissari og hún verði skilvirkari. Þannig lög eigum við að setja og helst oftar, í staðinn fyrir að vera hér að slá ryki í augu fólks og reyna að halda einhverju öðru fram án nokkurra haldbærra raka. Þetta er taktík sem er þekkt í þinginu, hún er ekki til sóma og hún er engum til gagns.