Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

barnaverndarlög.

731. mál
[15:23]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á barnaverndarlögum. Frumvarp þetta er liður í umfangsmiklum breytingum í þágu barna. Þessar umfangsmiklu breytingar eru afrakstur vinnu sem byggð er á mjög víðtæku samstarfi og þátttöku fjölmargra aðila. Verkefninu var ýtt úr vör með ráðstefnu vorið 2018. Í framhaldi skrifuðu fimm ráðherrar, auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir viljayfirlýsingu í þeim tilgangi að brjóta niður múra milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Í kjölfarið var skipaður stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna. Í stýrihópnum hafa starfað fulltrúar frá öllum þeim ráðuneytum sem skrifuðu undir umrædda viljayfirlýsingu. Jafnframt var skipuð þverpólitísk þingmannanefnd um málefni barna sem í var boðið fulltrúum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Þingmannanefndin hefur tekið virkan þátt í verkefninu þvert á flokka og má segja að hún hafi leitt þessa vinnu.

Á sama tíma, vorið 2018, skipaði ég starfshóp til að móta framtíðarsýn og stefnu í barnavernd til ársins 2030. Starfshópurinn vann greiningu á stöðu barnaverndarmála og skilaði áfanganiðurstöðu í október 2018. Í áfanganiðurstöðunni var mörkuð sú stefna að endurskoða löggjöf um barnavernd með það að markmiði að sett yrðu ný barnaverndarlög. Í febrúar 2019 sendi félagsmálaráðuneytið síðan bréf til ríflega 600 viðtakenda um land allt þar sem vakin var athygli á yfirstandandi vinnu og viðtakendur hvattir til að senda inn ábendingar og bjóða fram þekkingu sína með þátttöku í hliðarhópum á opnum fundum. Einn af þessum hliðarhópum fjallaði sérstaklega um barnaverndarlög. Eftir að niðurstaða hliðarhópanna lá fyrir var boðað til ráðstefnu á nýjan leik í samvinnu við Landssamband ungmennafélaga. Ráðstefna var haldin í október 2019 undir yfirskriftinni „Breytingar í þágu barna“. Á þeirri ráðstefnu voru helstu niðurstöður samráðsins kynntar, þar með talið áform um heildarendurskoðun barnaverndarlaga.

Vinna við heildarendurskoðunina hófst í félagsmálaráðuneytinu í upphafi árs 2020. Endurskoðunin hefur verið unnin í nánu samráði við hóp sérfræðinga og þingmannanefnd í málefnum barna. Jafnframt hefur verið haft víðtækt samráð við ýmsa hópa um heildarendurskoðun barnaverndarlaga. Hér vil ég sérstaklega nefna samráð við börn sem umboðsmaður barna hafði umsjón með að framkvæma. Einnig hefur verið haft mikið samráð við sveitarfélög vítt og breitt um landið í tengslum við útfærslu þessara breytinga. Vinnan við heildarendurskoðun barnaverndarlaga reyndist vera svo umfangsmikil að í lok árs 2020 var ákveðið í samráði við þingmannanefnd um málefni barna að skipta endurskoðun barnaverndarlaga í tvo áfanga. Frumvarp þetta felur í sér fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga. Vinna við síðari hluta hennar stendur yfir og er fyrirhugað að henni ljúki síðar á þessu ári.

Virðulegur forseti. Í samráði sem ég hef lýst hefur komið fram gagnrýni á skipan barnaverndarnefnda og barnaverndarumdæma. Gagnrýnin hefur beinst að því að pólitískar áherslur eigi ekki að ráða því hverjir veljast til ákvarðanatöku í barnaverndarmálum. Þá hefur verið gagnrýnt að lítil barnaverndarumdæmi hafi ekki möguleika á að veita barnaverndarþjónustu sem krefst mikillar sérfræðiþekkingar og náin tengsl á milli fólks í litlum umdæmum geti haft neikvæð áhrif á vinnslu barnaverndarmála. Í frumvarpinu er því lagt til að barnaverndarnefndir verði lagðar niður og barnaverndarumdæmi verði stækkuð. Í stað barnaverndarnefnda komi barnaverndarþjónusta sveitarfélaga og sérstök umdæmisráð í barnavernd sem skipuð verða fagfólki en ekki pólitískt völdum fulltrúum. Rétt er að geta þess að þessar hugmyndir voru mótaðar af starfshópi sem skipaður var árið 2020 og var m.a. skipaður fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka stjórnenda í velferðarþjónustu. Barnaverndarþjónusta sveitarfélaga ber ábyrgð á framkvæmd barnaverndarþjónustu á vettvangi sveitarfélaga. Í því felst m.a. rekstur barnaverndarúrræða og öll ákvarðanataka sem tengist barnaverndarmálum og er ekki sérstaklega falin umdæmisráðum. Umdæmisráð munu samkvæmt frumvarpinu úrskurða um tilteknar íþyngjandi ráðstafanir í barnavernd. Umdæmisráð starfa á vegum sveitarfélaga og eru skipuð lögfræðingi, félagsráðgjafa og sálfræðingi með reynslu af störfum í barnavernd. Skipunartími umdæmisráða er ráðgert að verði fimm ár og fellur ekki að kjörtímabili sveitarstjórnar.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að lágmarksstærð barnaverndarumdæma fjórfaldist eða fari úr 1.500 íbúum í 6.000 íbúa. Þetta er í samræmi við niðurstöður starfshópsins umrædda sem taldi að 6.000 íbúa barnaverndarumdæmi hefðu almennar forsendur til að halda uppi faglegu barnaverndarstarfi miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um meðalfjölda starfsmanna og barnaverndarmála. Í frumvarpinu er þó lagt til að sveitarfélög sem ekki finna samstarfsgrundvöll um barnaverndarþjónustu með nágrannasveitarfélögum geti fengið undanþágu frá reglum um lágmarksíbúafjölda ef þau geta sýnt fram á fullnægjandi fagþekkingu í barnavernd.

Virðulegi forseti. Hjá hv. velferðarnefnd eru nú til meðferðar þrjú frumvörp sem fela í sér að mínu mati einhverjar stærstu kerfisbreytingar sem ráðist hefur verið í í málefnum barna. Þar ber hæst frumvarp til nýrra heildarlaga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Í frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir um breytingu á barnaverndarlögum eru lögð til ýmis ákvæði sem tengja barnaverndarþjónustu inn í samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið þeirra breytinga er að skýra stöðu barnaverndarþjónustu við samþættinguna og stuðla að heildrænni samþættingarþjónustu sem veitt er á grundvelli barnaverndarlaga og annarra laga. Tillögur frumvarpsins fela í sér að ef fyrir liggur beiðni foreldra og eftir atvikum barns um samþættingu þjónustu þvert á þjónustukerfi getur barnaverndarþjónusta frá upphafi máls tekið þátt í teymisvinnu og áætlanagerð. Þá er mælt fyrir um mismunandi aðkomu barnaverndarþjónustu að samþættingu eftir því á hvaða stigi málið er. Gert er ráð fyrir að á meðan mál er í könnun taki barnaverndarþjónusta þátt í samþættingu þjónustu í þágu barnsins. Ef ástæða er til að grípa til úrræða á grundvelli barnaverndarlaga tekur barnaverndarþjónusta yfir málstjórn og leiðir teymisvinnu með þeim sem veita barninu þjónustu hverju sinni. Í þeim tilvikum þar sem ekki liggur fyrir beiðni um samþættingu þjónustu gerir frumvarpið ráð fyrir að barnaverndarþjónusta veiti með virkum hætti leiðbeiningar um samþættingu þjónustu og leitist þannig við að koma á samvinnu við foreldra um þjónustu í þágu barnsins. Ef barnaverndarþjónusta með aðkomu umdæmisráðs barnaverndar telur þörf á úrræðum samþættingar er lagt til í frumvarpinu að veitt verði sérstök heimild til að úrskurða um að samþættingu verði komið á. Þá er gert ráð fyrir að þjónusta í þágu barnsins sé samþætt óháð afstöðu foreldra ef barnaverndarþjónusta tekur við umsjá eða forsjá barnsins.

Virðulegur forseti. Eins og ég fjallaði um er frumvarpið m.a. byggt á sjónarmiðum sem komu fram í samráði við börn. Í frumvarpinu er lagt til að barnaverndarlögum verði breytt með þeim hætti að þar verði fjallað ítarlegar um þátttöku barna við meðferð barnaverndarmála. Meðal annars er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um rétt barna til að fá upplýsingar um mál sitt á barnvænan hátt. Þá er breytingunum ætlað að styrkja aðkomu barna að málum sem þau varða. Í barnaverndarlögum er þegar kveðið á um aðild barna, 15 ára og eldri, að barnaverndarmálum þegar kemur að vistun utan heimilis. Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að grípa megi til stuðningsúrræða án vistunar með samþykki barna sem orðin eru 15 ára.

Virðulegur forseti. Í samráði vegna heildarendurskoðunar barnaverndarlaga hafa komið fram ábendingar um vankanta á gildandi barnaverndarlögum. Eru því í frumvarpinu lagðar til ákveðnar breytingar sem hafa það að markmiði að koma til móts við þær ábendingar. Meðal breytinganna er styrking úrræða vegna ófæddra barna. Þar er m.a. átt við heimild barnaverndarþjónustu til að fara fram á að barnshafandi einstaklingur verði sviptur sjálfræði ef hann stofnar heilsu og/eða lífi ófædds barns síns í hættu. Þá er lagt til að umdæmisráð barnaverndar geti úrskurðað um vistun barna utan heimilis í allt að fjóra mánuði, en samkvæmt gildandi barnaverndarlögum hafa barnaverndarnefndir heimild til úrskurða slíka vistun í allt að tvo mánuði.

Í frumvarpinu er jafnframt ákvæði sem eiga að styðja við áform um sameiginlegan gagnagrunn og stafrænar lausnir í barnavernd. Markmið þessara stafrænu lausna er m.a. að bæta skráningu mála, auðvelda gagnaöflun við könnun og vinnslu barnaverndarmála og tryggja betur samfellu í barnaverndarþjónustu þannig að ekki verði rof eða tafir á málsmeðferð þegar börn og fjölskyldur flytjast á milli barnaverndarumdæma. Þá eru lagðar til breytingar sem fela í sér einföldun málsmeðferðar tiltekinna ráðstafana, m.a. er lagt til að barnaverndarþjónusta beini málum vegna brottvikningar heimilismanns og nálgunarbanns ávallt í farveg hjá lögreglu í stað reglu í gildandi barnaverndarlögum sem heimilar barnaverndarnefnd að setja slíkar kröfur sjálf fram fyrir dómi.

Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á framsetningu kæruheimilda laganna og breytingar á ákvæðum laganna um málsmeðferð vegna tilkomu barnaverndarþjónustu, umdæmisráða barnaverndar og barna- og fjölskyldustofu.

Virðulegur forseti. Eins og áður hefur komið fram er þetta frumvarp tengt stórum kerfisbreytingum í þágu farsældar barna. Gert er ráð fyrir að öll frumvörpin taki gildi á sama tíma, við upphaf árs 2022. Þá er lagt til að sá þáttur breytinganna sem lýtur að niðurlagningu barnaverndarnefnda taki gildi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga næsta vor. Ég hef mikla trú á að þessar breytingar verði til hagsbóta fyrir börn og barnafjölskyldur á Íslandi.

Virðulegur forseti. Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.