151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

668. mál
[15:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna. Að mínu mati er þetta mikilvægt mál en um leið vil ég nota tækifærið og þakka framkvæmdastjórum flokkanna sem hafa komið að þessu og hafa unnið að þessu í nokkurn tíma. Það er ljóst að það er áherslumunur varðandi einstök atriði en engu að síður er það fagnaðarefni að þverpólitískt samkomulag náðist um að koma málinu inn í þingið. Ég fagna því og vil taka undir þau orð sem forsætisráðherra setti fram hér í púltinu áðan. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig hann sjái framgang málsins, hvernig tímalínan er. Við erum hægt og sígandi að fara inn í kosningabaráttuna og ég spyr hvort forsætisráðherra sjái fram á að umhverfið verði þá að einhverju leyti breytt og hvort við megum ekki fagna því að þær áherslur sem eru settar fram í frumvarpinu verði að veruleika fyrir þessar kosningar.