151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

668. mál
[15:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og ég held ég muni eftir umræddri fyrirspurn. Hv. þingmaður hefur verið óþreytandi í því verkefni að setja þessi mál á dagskrá og ég held að það sé líka full ástæða til, ekki bara dæmin sem við höfum úr okkar litla samfélagi heldur líka dæmin erlendis um það hvernig persónuupplýsingum er beitt til að koma ákveðnum áróðri á framfæri gagnvart tilteknum hópum, oft einmitt ekki undir nafni eins né neins. Þetta er auðvitað stórmál sem ég vona að sé til bóta fyrir lýðræðið. Við höfum reynt að stíga varlega til jarðar þannig að við séum í senn að setja skýr viðmið án þess að ganga á tjáningarfrelsi fólks. Ég vona svo sannarlega að þetta verði til góðs fyrir íslenska stjórnmálaumræðu.

Ég trúi ekki öðru, þegar allir flokkar sameinast í þessu máli, en að í því verði ágætisvit þegar átta flokkar leggjast á eitt.