151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[15:52]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér með ánægju fyrir tillögu okkar í Viðreisn til þingsályktunar um viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir. Það vita náttúrlega allir að þetta er í tengslum og í takt við bæði þetta mál og síðan það sem ég mæli fyrir á eftir um að fela þjóðinni að ákveða um framhald viðræðna varðandi Evrópusambandið, en að vissu leyti ný nálgun. Þetta er gert í ljósi aðstæðna, og ekki síst vegna þeirra, vegna skuldastöðu ríkissjóðs, mikilvægis þess að við verðum hér með stöðugan gjaldmiðil, stöðugt gengi sem stuðlar að því að við eygjum frekari möguleika á því að halda vöxtum lágum og verðbólgu niðri — allt eru þetta óveðursský á lofti núna. Þetta mun leiða til þess að við verðum fljótari að koma okkur út úr þeim aðstæðum sem skuldsettur ríkissjóður býður upp á. Það verður að segjast eins og er að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu þriggja ára ber þess merki að það er mikil bjartsýni á að vextir verði óbreyttir, verðbólga verði lág og gengið verði stöðugt. Það eru merki um að við þurfum að fara aðrar leiðir og þetta er tillaga okkar. Tillaga okkar kemur ekki inn á leið ríkisstjórnarinnar, sem virðist vera að boða til hafta, gjaldeyrishafta, eins og við upplifðum á sínum tíma, án aðkomu löggjafans. Það er að mínu mati afar varasamt að ýja að því að sett verði hér á umsvifamikil gjaldeyrishöft. Það mun skerða samkeppnishæfni okkar Íslendinga verulega, svo ég tali nú ekki um annað mál sem er nýlega komið á dagskrá hér í þinginu varðandi lífeyrisskuldbindingar. Það er umhugsunarefni að eitt af framlögum ríkisstjórnarinnar til að taka á stöðu efnahagsmála er að koma með tillögu sem felur að einhverju leyti í sér kjaraskerðingu til lífeyrisþega, þ.e. verið er að fara úr því fyrirkomulagi að lífeyririnn sé verðlagsuppbættur mánaðarlega yfir í að það verði gert árlega. Þetta þýðir kjaraskerðingu til lífeyrisþega upp á um 70.000–80.000 á ári, en fyrir vikið verður eflaust auðveldara að herja á lífeyrissjóðina að koma að einhverju leyti, með einum eða öðrum hætti, að fjármögnun ríkissjóðs og hvernig á að greiða hana niður. Þetta eru álitamál, finnst mér, og við þurfum að vera með allar viðvörunarbjöllur uppi gagnvart því.

En í þessu máli erum við einfaldlega að leggja til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni á grundvelli aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu að óska eftir viðræðum við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir, í því skyni að tryggja stöðugleika á gjaldeyrismarkaði, styrkja samkeppnishæfni Íslands og efla nýsköpun.

Við vitum það í gegnum síðustu misseri og ár varðandi þetta stóra stökk sem nýsköpunin þarf á að halda til að verða fullur þátttakandi í hinum alþjóðlega heimi að hindrunin þar er á endanum gjaldmiðillinn, þ.e. að vera ekki með stöðugan gjaldmiðil. Það er sama við hvern maður talar innan nýsköpunargeirans og sprotageirans, enda sjáum við líka að stórfyrirtæki á Íslandi í sjávarútvegi, í iðnaði gera upp ekki í íslenskri krónu heldur í evrum eða dollurum.

Í frumvarpi til fjárlaga 2021 og fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 er gert ráð fyrir umtalsverðri útgjaldaaukningu ríkissjóðs með tilheyrandi hallarekstri. Markmið þess er að mæta því áfalli sem hagkerfið hefur orðið fyrir vegna heimsfaraldurs Covid-19. Breið samstaða er um að nýta góða stöðu í efnahagsmálum á Íslandi til þess að grípa til aðgerða til að milda þetta áfall. Á sama tíma er ljóst að stjórnvöld þurfa að leita allra leiða til að tryggja að nýju jafnvægi í tekjum og útgjöldum hins opinbera þegar faraldrinum lýkur. Í fjármálaáætlun eru hugmyndir um hvernig því markmiði verði náð. Ljóst er að svigrúm hins opinbera til þess að ná slíku jafnvægi án harkalegra aðhalds- og tekjuöflunaraðgerða er háð hagþróun komandi ára. Því meiri hagvöxtur sem verður í kjölfar þess að faraldrinum lýkur, því minna íþyngjandi verða aðgerðir til að ná að nýju jafnvægi í rekstri hins opinbera og því meiri líkur eru fyrir okkur að við getum staðið áfram undir velferðarkerfinu okkar.

Stöðugt gengi styður hagvöxtinn að okkar mati. Meginforsenda þess að hagvöxtur aukist er að framleiðni aukist. Framleiðni má auka með ýmiss konar aðgerðum, svo sem fjárfestingu í tækni, menntun, innviðum, hvötum til nýsköpunar og ábyrgri hagstjórn sem tryggir efnahagslegan stöðugleika. Hagstjórn íslenskra stjórnvalda undanfarinn áratug hefur verið ábyrg. Skuldastaða ríkissjóðs er góð og náðst hefur að byggja upp sögulega stóran gjaldeyrisvaraforða. Við vitum að það var m.a. út af vissum einskiptisaðgerðum að þrotabúin greiddu stórar fjárhæðir til ríkissjóðs. En það eru einskiptisaðgerðir. Engu að síður horfum við upp á að krónan mun enn verða uppspretta óstöðugleika. Gengi hennar hefur verið mun sveiflukenndara en gjaldmiðlar flestra nágrannalanda. Í þeirri kreppu sem nú ríkir hefur hún gefið verulega eftir, þrátt fyrir mjög stóran gjaldeyrisvaraforða og takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum lífeyrissjóðanna síðastliðið sumar, eins og við upplifðum. Íslenska hagkerfið er mjög háð milliríkjaviðskiptum og því eru slíkar sveiflur hagkerfinu erfiðar og dýrkeyptar.

Gengissveiflur eru afar neikvæðar fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu. Þær valda óvissu og ófyrirséðum sveiflum í tekjum og kostnaði. Þær torvelda alla áætlunargerð, veikja samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuvega, leiða til verðlagssveiflna og ýta undir verðbólgu. Höfum það hugfast að Ísland er með allt að því átta sinnum hærri verðbólgu en t.d. Danmörk. Við erum í rauninni eina landið innan Evrópu þar sem verðbólga hefur farið fram úr áætlunum. Eina landið. Smæð gjaldmiðilsins og óstöðugleiki hans eru síðan ráðandi þættir í viðvarandi hærra vaxtastigi á Íslandi en í nágrannalöndum. Hátt vaxtastig eykur kostnað í rekstri og framkvæmdum og fækkar arðbærum fjárfestingum fyrirtækja og einstaklinga. — Fækkar arðbærum fjárfestingum fyrirtækja og einstaklinga. — Stöðugur gjaldmiðill er því ein af lykilforsendum stöðugleika í efnahagsmálum og bættrar samkeppnisstöðu Íslands. Til þess að við getum laðað að erlent fjármagn í nýsköpun, í sprotafyrirtækjum, í grunnatvinnuvegi okkar, er algjört lykilatriði að fá hér stöðugan gjaldmiðil sem veitir okkur fyrirsjáanleika í náinni framtíð.

Seðlabanki Íslands gaf út skýrsluna Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum árið 2012, þar sem lagt er mat á valkosti Íslands í gjaldeyrismálum. Þar er m.a. fjallað um upptöku evru sem valkost, en beinast liggur við að tengja gengi krónunnar við evru vegna umfangs viðskipta Íslands og Evrópuþjóðanna. Í skýrslunni eru ræddir tveir möguleikar, annars vegar einhliða upptaka og hins vegar bein þátttaka Íslands í myntsamstarfi Evrópusambandsins, ERM II. Niðurstaða skýrsluhöfunda er að einhliða upptöku fylgi verulegir gallar sem gera þann kost ófýsilegan. Þátttaka Íslands í ERM II krefjist hins vegar inngöngu í Evrópusambandið. Flutningsmenn tillögu þessarar telja enn að vænlegasti kosturinn sé að ljúka samningsferli um aðild að Evrópusambandinu, og ég vil undirstrika að það er skynsamlegasta leiðin. En við vitum líka, og ég kem að því þegar ég flyt hitt málið á eftir, að það tekur lengri tíma. Það tekur mun lengri tíma og við höfum ekki mjög mikinn tíma til að ýta af stað verðmætasköpuninni og ýta undir framleiðnina, sem þarf að vera mjög hröð núna á næstu mánuðum og misserum. Þess vegna leggjum við til þessa leið í ljósi þeirra þrenginga efnahagsmála sem við stöndum núna frammi fyrir og þeirri knýjandi þörf að fá hér stöðugan gjaldmiðil. Við gerum það m.a. með þessari leið okkar.

Vegna þess hve brýnt er að tryggja stöðugleika í gjaldeyrismálum leggjum við til þá málamiðlun sem við ræðum hér, að Ísland kanni möguleika á tvíhliða samningi við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Málamiðlunin svarar þessari brýnu þörf en heldur opnum þeim möguleika að síðar verði skrefið til aðildar stigið að fullu.

Nokkuð hefur verið skrifað um þessa leið, m.a. af Guðmundi Magnússyni, prófessor í hagfræði, og Stefáni Má Stefánssyni, prófessor í lögfræði og helsta sérfræðingi Íslands í Evrópurétti. Þeir hafa bent á að ekkert í lögum Evrópusambandsins banni slíkt samstarf. Fyrirmynd að slíkum samningi mætti sækja í fyrirrennara ERM II, Peningakerfis Evrópu (e. European Monetary System, EMS) og Evrópska gengissamstarfsins (e. European Exchange Rate Mechanism, ERM). Það fyrirkomulag var tekið upp innan Evrópusambandsins árið 1979 og lauk þegar ERM II tók við hlutverki þess. Þessu fyrirkomulagi var ætlað að tryggja innbyrðis stöðugleika á gjaldmiðlum Evrópuþjóðanna, sem er nákvæmlega markmið þessarar tillögu.

Í nýlegri grein í Morgunblaðinu benda Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði, á að slíkur tvíhliða samningur við Evrópusambandið geti sótt fordæmi í gjaldeyrisfyrirkomulagi Dana. Gengi dönsku krónunnar er haldið innan þröngs bils í gengi gagnvart evru. Stöðugleiki gengisins er tryggður með nánu samstarfi Seðlabanka Evrópu og danska Seðlabankans. Í fyrirhuguðu fyrirkomulagi Íslands og Evrópusambandsins væri krónunni einungis leyft að sveiflast á mjög þröngu bili gagnvart evru. Stöðugt gengi yrði sameiginlega varið af Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu.

Þó svo að stöðugleiki í gengi íslensku krónunnar gagnvart evru sé mjög stórt efnahagslegt hagsmunamál fyrir Ísland eru efnahagslegir hagsmunir Evrópusambandsins af slíkum samningi ekki mjög miklir, það verður að segjast eins og er. Evrópusambandið hefur þó tekið mörg skref í gegnum tíðina til þess að auðvelda viðskipti innan Evrópu, þrátt fyrir að efnahagslega umfangið sé ekki mikið og það eru mörg dæmi þess.

Eitt skýrasta dæmið um það er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Markmið EES-samningsins er einkum að tryggja fjórfrelsi og eðlilega samkeppni innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hliðstæð rök lágu til grundvallar ERM-fyrirkomulaginu við upphaf níunda áratugarins. Ætla má að beita mætti nákvæmlega sömu rökum í samningum um samstarf Evrópusambandsins og Íslands í gjaldeyrismálum, því að við blasir að stöðugt gengi krónunnar gagnvart evru myndi auðvelda mjög viðskipti og efla innri markað Íslands og annarra Evrópuþjóða. Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu er líkleg til að auka pólitískan áhuga Evrópusambandsins á nánara samstarfi við önnur ríki, enda myndi slíkt varpa jákvæðu ljósi á samstarf við sambandið. Trúverðugleiki Íslands sem viðsemjanda er mjög mikill og líklegur kostnaður Evrópusambandsins óverulegur. Hagstjórn á Íslandi hefur verið mun betri en margra aðildarríkja Evrópusambandsins undanfarin ár og gjaldeyrisvaraforði Íslands er hlutfallslega stór. Afar ólíklegt er því að kostnaður myndi falla á Evrópusambandið umfram ábata þess af auknum viðskiptum. Hér skiptir einmitt máli stærð gjaldeyrisvaraforðans, hvernig hann er nýttur. Og af því að hann er það stór núna er einmitt tækifæri fyrir okkur Íslendinga að fara í mjög markvissar viðræður við Evrópusambandið, pólitískar viðræður, ekki embættismannaviðræður heldur pólitískar viðræður.

Ísland þyrfti án efa að undirgangast kröfur um ábyrga hagstjórn í formi reglna um ríkisfjármál og skuldir hins opinbera. Það hafa íslensk stjórnvöld hins vegar þegar gert með lögum um opinber fjármál svo að viðbótarkostnaður íslenskra stjórnvalda af slíkum skilyrðum yrði hverfandi. Að framangreindu skoðuðu er ljóst að ávinningur íslensku þjóðarinnar af samstarfi við Evrópusambandið í gjaldeyrismálum og gagnkvæmum gengisvörnum yrði verulegur. Gengi það eftir yrði það til þess fallið að tryggja stöðugleika íslensku krónunnar gagnvart evru og örva með því gagnkvæm viðskipti á innri markaði Evrópusambandsins. Að mati flutningsmanna tillögunnar er samþykkt hennar eitt mikilvægasta skref sem ríkisstjórnin getur tekið til að stuðla að auknum hagvexti í kjölfar heimsfaraldursins, eitt allra mikilvægasta skrefið sem við getum tekið.

Þetta er okkar leið til þess að reyna að tryggja hér strax stöðugleika í gengismálum sem getur stuðlað að því að við getum haldið hér vöxtum lágum og getur leitt til þess að við getum knúið verðbólguna niður að einhverju leyti. En leið ríkisstjórnarinnar er að boða hugsanleg gjaldeyrishöft og aðrar leiðir, eins og við höfum bent á, þ.e. að fara í úr því að boða lántökur hér innan krónuhagkerfisins, sem við í Viðreisn studdum. Þegar við studdum aðgerðir ríkisstjórnarinnar töldum við að það væri gert á grunni þess að við værum innan krónuhagkerfisins. En síðan breytti ríkisstjórnin um kúrs og ákvað að taka mikla áhættu, gengisáhættu, með erlendum lánum, sem er mjög varhugavert fyrir ríkissjóð og fyrir hag heimilanna, fyrirtækjanna, því að við Íslendingar höfum aldrei upplifað tímabil í íslenskri hagsögu sem verið hefur án gríðarlegra sveiflna, með vondum og erfiðum afleiðingum fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Þetta er okkar tillaga inn í það ástand sem nú er og ég vona auðvitað að henni verði vel tekið.