151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka heils hugar undir með hv. þingmanni. Ég hef spurt mig: Hvert fór íslenskt atvinnulíf í tíu ár þegar þetta var eitt brýnasta hagsmunamál þeirra og íslensks almennings með verkalýðshreyfinguna í fylgdinni? Hv. þingmaður ber hér fram brýnar spurningar. Auðvitað finnur maður að innan atvinnulífsins eru skiptar skoðanir. En við finnum líka að þeir sem hafa hátt og vilja hafa hátt um krónuna, þ.e. vilja skipta um gjaldmiðil, fá stöðugan gjaldmiðil, eru svolítið kveðnir í kútinn innan atvinnulífsins. Ég vil hvetja atvinnulífið og iðnaðinn með nýsköpunina, öll fyrirtækin, sprotafyrirtækin o.fl Ég vil hvetja verkalýðshreyfinguna sem kallar m.a. á að verðtryggingin verði afnumin. Það gerist með stöðugum gjaldmiðli. Það gerist með upptöku annars gjaldmiðils. Og þangað erum við auðvitað að beina sjónum okkar.

Þetta er innlegg til að rífa umræðuna svolítið upp úr þeirri stöðnun sem hún hefur verið í. Það er búið að vera pottlok ofan á umræðunni um Evrópumál og gjaldmiðilsmál og það er eins og enginn þori að tala um nákvæmlega þessi mál. Þetta er einmitt, eins og hv. þingmaður sagði hér áðan, eitt stærsta hagsmunamál íslenskra heimila og íslenskra fyrirtækja en ekki síst unga fólksins okkar. Eru íslensk ungmenni eitthvað öðruvísi en t.d. bresk? 70% breskra ungmenna, 25 ára og yngri, höfnuðu því að Bretar myndu yfirgefa Evrópusambandið. Það eru er mjög skýr skilaboð frá ungu fólki. Ungt fólk sér heiminn sem opinn, ekki lokaðan eins og stór hópur innan ríkisstjórnarflokkanna vill hafa það. Það á bara að setja hér allt í lok, lok og læs. Ég er á móti því. (Forseti hringir.) Við í Viðreisn erum að reyna að halda þessari umræðu vakandi. Við erum að setja brýnustu hagsmunamál þjóðarinnar á dagskrá.