151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu frá þingflokki Viðreisnar um að taka upp evru í samstarfi við Evrópusambandið. Ég verð að viðurkenna að þegar fréttir bárust af þessari þingsályktunartillögu hugsaði ég: Jæja, nú verður gaman. Við getum farið að ræða þau mál sem hv. þingmenn Viðreisnar hafa sumir hverjir sagt að ekki megi ræða. Það er auðvitað alls ekki svo, virðulegur forseti. Hér má ræða allt og þingmönnum er heimilt að leggja fram þingsályktunartillögur og frumvörp, nánast eins og þá lystir. Þetta er þó í fyrsta skipti síðan ég settist á þing að slík tillaga liggur fyrir, að því er ég best veit. Ég hef a.m.k. ekki orðið vör við slíka umræðu áður. Það fer kannski vel á því að það sé gert í ljósi þess að kjörtímabilinu er að ljúka og senn líður að kosningum. Ég held að mikilvægt sé að kjósendur viti hvað þeir flokkar sem bjóða fram til Alþingis standa fyrir.

Virðulegur forseti. Hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir sem talaði á undan mér sagði að sönnunarbyrðin ætti í rauninni að vera hjá þeim sem vilja óbreytt ástand. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það svolítið furðuleg nálgun. Í þessu máli ætti einmitt heldur að sannfæra okkur um ástæður fyrir því að breyta. Enn sem komið er hefur hv. þingmönnum ekki tekist að sannfæra mig um gildi þess. Ég verð þó að segja að það er ýmislegt í greinargerðinni sem ég get tekið undir. Til að mynda segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Meginforsenda þess að hagvöxtur aukist er að framleiðni aukist. Framleiðni má auka með ýmiss konar aðgerðum, svo sem fjárfestingu í tækni, menntun, innviðum, hvötum til nýsköpunar og ábyrgri hagstjórn sem tryggir efnahagslegan stöðugleika.“ — Ég get tekið undir allt þetta. — „Hagstjórn íslenskra stjórnvalda undanfarinn áratug hefur verið ábyrg. Skuldastaða ríkissjóðs er góð og náðst hefur að byggja upp sögulega stóran gjaldeyrisvaraforða.“ — Allt er þetta rétt. — „Samt sem áður er krónan enn uppspretta óstöðugleika.“

Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að alla vega það sem ég hef lært í hagfræði getur ekki fært rök fyrir því að krónan sé uppspretta óstöðugleika heldur tekur krónan sveiflum í samræmi við það hvernig efnahagsástandið er, enda er það auðvitað svo að allir gjaldmiðlar taka sveiflum þó að vissulega sé rétt að sveiflurnar eru mismiklar. Það er einkenni á íslensku krónunni að hún tekur meiri sveiflum en margir aðrir stærri gjaldmiðlar.

Þegar maður les áfram í gegnum greinargerðina er alveg ljóst að hún er náttúrlega ákveðið viðhengi við þá tillögu sem liggur fyrir og kemur væntanlega til umræðu hér á eftir, þ.e. að Ísland taki upp aðildarviðræður um inngöngu í Evrópusambandið. Ég mun örugglega nota tækifærið og ræða líka um það mál en það er tillaga sem ég aðhyllist ekki. Þrátt fyrir að þær hugmyndir hafi ekki fengið mikinn tíma í þessum sal síðan ég settist á þing hafa þær oft verið til umræðu frá því að ég byrjaði að taka þátt í pólitísku starfi, bæði innganga í Evrópusambandið svo og að taka upp annan gjaldmiðil eða tengja okkur við erlendan gjaldmiðil.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hélt hér ágætisræðu áðan. Ég get ekki sagt að ég sé sammála niðurstöðu hans eða sýn hans en það er bara gott og blessað. Þannig á það líka að vera hér. En það er í rauninni óraunhæft að ætla sér að tengja íslensku krónuna við evru ef ekki er jafnframt stefnt að því að ganga í Evrópusambandið. Það er eiginlega hægt að lesa það mjög skýrt í gegnum greinargerðina og í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem flutti ræðu áðan og fór jafnframt í andsvör við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson. Ég hélt kannski frekar að umræðan yrði um kosti og galla íslensku krónunnar og þá kosti og galla þess að taka upp eða tengja okkur öðrum gjaldmiðli. Umræðan hefur auðvitað verið um hvaða gjaldmiðil væri þá skynsamlegast að tengja okkur við eða taka upp. Þá má alveg spyrja sig: Af hverju liggur fyrir tillaga um að tengja okkur við evruna? Það er ekki eins og evruríkin séu okkar stærstu viðskiptalönd, þótt þau séu vissulega stór í því samhengi, heldur eru það Bandaríkin og Bretland sem hvorugt er með evru. Í gegnum tíðina hefur umræðan gengið út á ýmsar tillögur um að tengja okkur öðrum gjaldmiðli. Ég lít samt sem áður þannig á að sú umræða hafi fært okkur á þann stað sem við erum í dag, einmitt að vera með íslensku krónuna, sjálfstæða íslenska krónu.

Í ljósi þess sem sagt var í ræðu áðan um að stjórnarflokkarnir — og ætla ég ekki að tala fyrir alla en alla vega þann flokk sem ég tilheyri — væru flokkar lokunar vil ég segja að það er einmitt skýr utanríkisstefna Íslands að við treystum á alþjóðaviðskipti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fyrir þingið fjölda skýrslna og stefna um hvernig við bætum þá stöðu okkar. Auk þess má nefna að hæstv. atvinnuvegaráðherrar hafa jafnframt komið fram með stefnur um hvernig hægt er að treysta stöðu íslensks atvinnuvegar. Í því samhengi hefur oft verið nefnd sú aukastoð okkar sem felst í þekkingargreinum, nýsköpun, rannsóknum og vísindum. Það eru svo sannarlega atvinnugreinar sem ég tala fyrir og ég hygg að við höfum ráðist í mjög margar mikilvægar aðgerðir á síðustu misserum til að bæta hag þessara atvinnugreina sem eru okkur alveg gríðarlega mikilvægar.

Eftir stendur, virðulegur forseti: Hver eru rökin fyrir því að taka upp eða tengja okkur evrunni? Ég held að einu rökin séu í rauninni samhengið sem við munum þá væntanlega ræða á eftir í umræðunni um hvort við eigum að verða aðilar að Evrópusambandinu. Það er kannski stóra spurningin og eðlilegt, þar sem ekki er mikið eftir af tíma mínum hér, að nota tímann í að ræða það. Í greinargerðinni og þeim ræðum sem heyrst hafa eru engin haldbær rök fyrir því af hverju það ætti að vera evra. Af hverju ekki aðrir gjaldmiðlar? Og hvað með kosti íslensku krónunnar? Þeir eru jú sannarlega töluverðir. Ég ætla ekki að segja hún sé fullkomin og auðvitað höfum við glímt við þau vandkvæði að hún sveiflast, en einmitt vegna þess að okkur hefur tekist vel upp á síðustu misserum í efnahagsstjórninni erum við að sjá umhverfi sem við höfum ekki séð áður með mjög lágu vaxtastigi, vaxtastigi sem hefur aldrei þekkst áður. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn sem tala fyrir þessu — nú gleðst sú sem hér stendur yfir að hafa fengið fleiri í salinn til að fylgjast með ræðunni — telji í alvöru að ef við tengdum okkur við evruna myndi Seðlabanki Evrópu í aðgerðum sínum taka tillit til þess efnahagsástands sem uppi er á Íslandi. Er líklegt að þær sveiflur sem eru í Þýskalandi eða Frakklandi séu algerlega sambærilegar því sem gerist á Íslandi? Það eru auðvitað stóru ríkin og stóru efnahagssvæðin sem Seðlabanki Evrópu horfir til.

Virðulegur forseti. Þó að hægt sé að taka undir ýmislegt í þessari ágætu greinargerð sem talar um Ísland sem trúverðugan viðsemjanda, sem það sannarlega er, og ábyrga hagstjórn okkar á síðustu misserum er erfitt að lesa sig inn á þau rök að þetta sé leiðin. Eins og ég sagði áðan fagna ég því þó að málið sé komið til umræðu því að mér hefur leiðst sá málflutningur að hér þori fólk ekki að taka umræðuna. Í mínum huga hefur þetta mál verið rætt oft og lengi en ég er alveg tilbúin að taka umræðuna aftur og geri það hér með. En ég segi á sama tíma: Einhvern veginn hefur hv. þingmönnum ekki tekist að sannfæra mig um gildi þess sem hér er lagt til.