151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hún spurði um atvinnuleysi og ég tek vissulega undir áhyggjur hv. þingmanns af því. Þær atvinnuleysistölur sem við sjáum í dag eru algerlega óásættanlegar. Þær eru engu að síður tölur sem við höfum horft á í Evrópu til lengri tíma litið en fyrir okkur er þetta algerlega nýtt og vonandi tímabundið ástand sem til kemur einmitt vegna þess sem hv. þingmaður sagði, falls ferðaþjónustunnar á tímum Covid.

Hæstv. forseti. Ég hef ekki skilið rökin með nýjum gjaldmiðli út frá atvinnuleysi. Við höfum einmitt verið það lánsöm hér á Íslandi að vera með lítið atvinnuleysi. Ég hef trú á því að við getum gert það áfram og það snýr að þeim aðgerðum sem við erum í núna og þurfum að ráðast í enn frekar á næstu misserum, að búa vel að fyrirtækjum á Íslandi svo að þau geti risið aftur eftir veiruna. Rökin með íslensku krónunni hafa verið þau að hún vinni með efnahagssveiflum og bent hefur verið á að við höfum náð lágu atvinnuleysi. Ég held að það sýni sig og að sá stutti tími sem liðinn er frá því að Covid skall á og það atvinnuleysi sem við sjáum núna geti ekki verið rök fyrir hinu gagnstæða.

Hv. þingmaður kom líka inn á auknar álögur á heimilin á Íslandi og það að við greiðum hærri vexti og hér sé verðbólga sem hefur ekki tíðkast í samanburðarlöndum okkar. Reyndar hefur víða verið verðhjöðnun sem er heldur ekki af hinu góða og einhver lágmarksverðbólga getur verið kostur frekar en hitt. En það er alveg rétt, og það er eitt af því sem ég nefndi í ræðu minni og við höfum sannarlega séð, að við sjáum þær sveiflur sem hafa orðið á verðbólgu. Við höfum þó náð gríðarlega miklum árangri á síðustu misserum, alveg eins og greinargerðin frá hv. þingmanni tekur ágætlega á og það er okkar stóra verkefni nú sem endranær.