151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki náð að svara spurningunni áðan varðandi uppgjör fyrirtækjanna. Eins og hv. þingmaður kom inn á hafa stór fyrirtæki sem eru í alþjóðaviðskiptum leyfi til að gera upp í erlendri mynt. En alveg eins og hv. þingmaður kom inn á gera þau ekki öll upp í evrum. Þetta er held ég eitt af því sem er eðlilegt að smáeyjan Ísland leyfi sínum alþjóðlegu fyrirtækjum að gera vegna þess að þau starfa á alþjóðamarkaði. Ég átta mig ekki alveg á samhengi hlutanna hjá hv. þingmanni, eins og það myndi breyta öllu þó að við værum með evru, hvort þessi fyrirtæki myndu þá ekki vilja gera upp í dollurum ef þau hafa kosið það hingað til eða einhverjum öðrum gjaldmiðlum.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður ræddi hér líka lántökukostnað heimilanna. Ég get alveg tekið undir það og það er auðvitað eitt af okkar stóru verkefnum að tryggja að verðbólga sé lág hér og vaxtastig eðlilegt. Það verður að segjast eins og er að það hefur gengið mjög vel á síðustu misserum og vandséð að það myndi með einhverjum hætti breytast og verða betra ef evran væri hér.

Hv. þingmaður kemur inn á rök sem mjög gjarnan eru notuð, að matarkarfan sé ódýrari innan Evrópusambandsins. Það er vissulega rétt. Við þekkjum það, við Íslendingar, þegar við ferðumst erlendis, að við fáum töluvert mikið fyrir peninginn. En það er náttúrlega líka þannig að laun á Íslandi eru mun hærri en víðast hvar í þessum Evrópulöndum þannig að kaupmáttur íslenskra heimila er ekki lakari, betri ef eitthvað er, og ég veit að hv. þingmaður þekkir það mjög vel úr alþjóðlegum samanburði hvað okkur Íslendingum hefur vegnað vel, eigum við að segja þrátt fyrir eða vegna þess að við höfum íslensku krónuna.