151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:56]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er smá getraun: Hvaða flokkur skrifaði þennan texta?

„Helsti kostur þess að taka upp nánara samstarf við Evrópusambandið er að mati flestra sá efnahagslegi stöðugleiki er fælist í að geta tekið upp hinn sameiginlega gjaldmiðil Evrópusambandsins, evruna.“

Og aðeins lengra inn í þennan sama texta frá sama aðila stendur, með leyfi forseta, köllum hann XXX:

„… telur að leita eigi eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á grundvelli 18. greinar þeirrar efnahagsáætlunar sem unnið er eftir um að stefnt verði að því að íslensk stjórnvöld og IMF vinni að því í sameiningu að í lok áætlunarinnar geti Íslendingar tekið upp evru sem gjaldmiðil.“

Hvaða aðili skrifaði þessi orð? Þetta var Sjálfstæðisflokkurinn árið 2008. Þetta er sérálit Sjálfstæðisflokksins, þetta er væntanlega stefna Sjálfstæðisflokksins, flokks hv. þingmanns. Ég spyr: Hvað hefur eiginlega breyst? Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem telur sig vera málsvara íslensks atvinnulífs, — sem að mínu mati er ein mesta blekking og misskilningur íslensks atvinnulífs — hvernig stendur á því að þessi stóri flokkur, sem fer nú síminnkandi, alla vega á líftíma okkar, er algjörlega búinn að snúa baki við hagsmunum þorra íslenskra fyrirtækja? Hvernig stendur á því að þessi flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur fyrst og fremst hagsmuni mjög þröngs hóps fyrirtækja í huga? Það eru sjávarútvegsfyrirtækin, það eru rútufyrirtækin, það eru álfyrirtækin og það eru eignarhaldsfélögin. Þetta eru fyrirtækin sem gera upp í evru en hagnast á krónunni. Þetta eru fyrirtæki sem hagnast á gengisfellingunni. Munið að með gengisfellingu rýrnar virði krónunnar. Þá erum við að færa verðmæti frá almenningi (Forseti hringir.) yfir til útflutningsgreinarinnar. Þetta er svo skýrt dæmi um sérhagsmunagæslu þessa flokks. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað breyttist frá frá því að þessi orð voru skrifuð árið 2008 (Forseti hringir.) þegar Sjálfstæðisflokkurinn vildi taka upp evruna?