151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er ekki ljóst nákvæmlega hvaða plagg hv. þingmaður vísar í en Sjálfstæðisflokkurinn hefur sem flokkur ekki ályktað með þeim hætti að hann vilji taka upp evruna. Aftur á móti, eins og ég sagði áðan, hefur þessi umræða verið í gangi innan Sjálfstæðisflokksins, sem og væntanlega annarra flokka og í samfélaginu öllu, í töluvert langan tíma. Þetta er ekki ný umræða. Niðurstaðan af þeirri umræðu hefur leitt okkur á þann stað sem við erum á í dag. Og eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom svo ágætlega inn á í ræðu sinni áðan er það óraunhæf leið að ætla að taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið. Ég gat ekki skilið orð hv. þingmanns betur hér áðan en að hann væri einmitt að tala um það. Það var skoðað ítarlega á sínum tíma og uppi voru raddir um að það gæti verið ákjósanlegt að tengja okkur við eða taka einhliða upp evruna. En það voru líka umræður um það, og það var m.a. skoðað innan Sjálfstæðisflokksins, hvort ástæða væri til að skoða kanadíska dollarann, norsku krónuna eða evruna. Pundið og dollarinn hafa að sjálfsögðu líka verið nefnd í þeim efnum. Þetta er því væntanlega eitt af þeim málum sem hefur verið skoðað hvað mest. En öðrum málflutningi hv. þingmanns um að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki talsmaður nema einhverra örfárra atvinnugreina ætla ég auðvitað að vísa alfarið á bug. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn kunni að vera minni en hann ætti að vera er hann enn þá stærsti flokkurinn á þingi og stærsti flokkurinn samkvæmt síðustu könnunum.