151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er vandi á höndum. Ég tók ekki eftir neinni beinni spurningu en það var vissulega hvatning. Ég verð nú að viðurkenna að mér fannst hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson einfalda hagfræðikenningar allverulega hér þegar hann talaði um verðbólguna áðan, ekki síst vegna þess að ég minnist þess að hafa setið í tíma hjá hv. þingmanni þegar hann var kennari og var að tala um hagfræði. Í þessari ræðu ákvað hann að taka bara mjög afmarkaðan bút og nota sér í hag í sínum málflutningi.

Virðulegur forseti. Síðustu orð hv. þingmanns eru örugglega orð sem ég hefði tekið undir og talað fyrir fyrir um tíu, fimmtán árum síðan líklega, þ.e. að íslensk fyrirtæki þurfi stöðugleika, ég tek undir það og það er mikilvægt fyrir okkur öll, og jafnvel það líka að íslensk fyrirtæki þyrftu að geta gert upp eða búa við sömu mynt og viðskiptalöndin. Þess vegna var einmitt ráðist í svo mikla skoðun á því hvað væri hentugasti gjaldmiðillinn fyrir Ísland.

Virðulegur forseti. Eins og kom svo vel fram í ræðu hv. þingmanns áðan þá er þetta ekkert lausnin. Það að taka upp evru einhliða er ekki lausn, það er bara óraunhæft og það er ekki einu sinni hægt. Það sem hv. þingmaður er raunverulega að leggja til og þeir þingmenn sem flytja þessa tillögu er að ganga í Evrópusambandið. Og það ætti að vera umræðan: Hverjir eru kostir og gallar þess að ganga í Evrópusambandið? Ég efast ekki um að við munum taka þá umræðu hér á eftir, ekki það að hún hafi aldrei verið tekin. Hún hefur mjög oft verið tekin og áhugi íslenskra kjósenda hefur verið mjög lítill á því að ganga í Evrópusambandið, guði sé lof.