151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:17]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nú byrja á leiðrétta hv. þingmann, sem ég þakka samt sem áður fyrir andsvarið, ég lauk ekki máli mínu á því að kalla þingsályktunartillöguna einfeldningslega, ég myndi vonandi ekki grípa þannig til orða. Ég nefndi hana hins vegar sem dæmi um umræðu um þessi mál frá þröngu sjónarhorni, (SMc: Já.) sjónarhornið væri þröngt. Ég hefði hvatt flutningsmenn tillögunnar til að líta á gjaldeyrismál í miklu víðara samhengi, eins og ég var að nefna hérna áðan, og velta því fyrir sér, ef menn eru áfram um að binda íslensku krónuna við einhvern gjaldmiðil, hvort það væri þá ekki nær að líta til fleiri gjaldmiðla í einu eða a.m.k. færa einhver rök fyrir því í þessari þingsályktunartillögu af hverju hún lýtur að því að binda krónuna við evru en ekki einhvern annan gjaldmiðil sem myndi kannski taka meira mið af okkar efnahagslífi og okkar sveiflum. Ég get svo sem ekki svarað því hvaða gjaldmiðill það væri, kannski norska krónan, kannski kanadíski dollarinn eða einhverjir aðrir gjaldmiðlar ríkja sem eiga mikið undir náttúruauðlindum, ég nefndi það sem dæmi. Nú eða bandaríkjadalurinn, það er mest reynsla í heiminum við einhvers konar tengingu eða a.m.k. notkun bandaríkjadals þó að það sé kannski ekki með vilja eða sérstakri vitund stjórnvalda þar.

Hv. þingmaður spurði mig sérstaklega hvort ég þekkti þau lönd sem hann nefndi. Ég svara því bara strax: Nei, ég þekki ekki hvernig þeim hefur reitt af, þeim sem hafa fest sína gjaldmiðla með þessum hætti. En ég man það þó að Bretland og breska pundið varð fyrir árás spákaupmanna á þeim tíma þegar það var í einhverju gjaldeyrissamstarfi. Ég bendi bara á að spákaupmennska (Forseti hringir.) er ógn sem steðjar að öllum ríkjum. Allir gjaldmiðlar geta orðið fyrir slíku.