151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:19]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Úr því að hv. þingmaður nefnir Bretland þá er það frægt dæmi. Ég held að það hafi verið 1991. Það má nefna að á þeim tíma, eins og nú er, var breska pundið frífljótandi eða alla vega fljótandi, það er smá tæknilegur munur á þessu tvennu, þannig að það var ekki endilega bindingin sem olli því að sú spákaupmennska tókst. En aftur á móti eru fjölmörg lönd, sum eru náttúrlega þróunarlönd og ekkert endilega eftirsóknarvert að við séum að feta of mikið í fótspor þeirra, en einnig stór og stöndug lönd eins og Singapúr sem reiða sig einmitt á svona skriðlegt fyrirkomulag með tengingu við marga gjaldmiðla. Ég get alveg tekið undir það að kannski ættum við að vera að horfa á einhvers konar skriðlega tengingu við myntkörfu sem myndi samanstanda af þeim gjaldmiðlum sem við notum mest. Þá verð ég að viðurkenna að mér finnst svolítið skrýtið að fókusinn hjá hv. þingmanni sé á dollar og norska krónu en ekki á evruna, sem er einmitt ágætisgjaldmiðill sem við notum mjög mikið í okkar viðskiptum hér á landi og skiptir heilmiklu máli. En ég skil samt að markmiðið hjá hv. þingmanni er væntanlega ekki að slá evruna út af borðinu. Ég vona að það sé ekki réttur skilningur. En í öllu falli þá held ég að við verðum að muna í þessu samtali að þetta snýst ekki bara um frífljótandi íslenska krónu með verðbólgumarkmiði versus það að taka upp evru heldur eru svo mörg stig þarna inn á milli, t.d. það fyrirkomulag sem ég ætla að tala um í ræðu minni hér á eftir, sem Króatía tók upp á tímabili, og fjölmörg önnur sem ég held að við gætum grætt mikið á að kynna okkur töluvert betur.