151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætla bara að grípa á lofti síðasta boltann sem hún kastaði upp, en hún talaði um samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Er í raun og veru hægt að tala um það í fullri alvöru að íslenskt atvinnulíf eigi sína hagsmuni undir því hvernig árar í Þýskalandi og Frakklandi og búa við mynt þar sem ákvarðanir eru teknar út frá þýsk-frönskum hagsmunum og eru náttúrlega gjörsamlega ótengdar grundvallaratvinnuvegum okkar?

Hv. þingmaður fór mjög víða í andsvari sínu og væri hægt að koma víða niður. En það sem var kannski mest áberandi var að hv. þingmaður skautaði algjörlega fram hjá því sem var lykilatriði í ræðu minni. Eftir hvaða farvegi sér þingmaðurinn fyrir sér að afleiðingar ytri áfalla, sem þjóðarbúskapur okkar er viðkvæmur fyrir, eigi að koma fram? Ég ræddi hérna annars vegar um ríkisfjármálin og hins vegar um vinnumarkaðinn og kjör fólks.

Síðan nefnir hv. þingmaður verðtrygginguna og hún virðist, ef ég skil hv. þingmann rétt, líta þannig á að þjóðin sé í eins konar gíslingu með þessa verðtryggingu, að hún þurfi að vinna það til að ganga í þetta Evrópusamband, með allri virðingu fyrir því, svo það megi losa hana undan því oki sem verðtryggingin hefur reynst. Og ég hef saknað stuðnings hv. þingmanns og flokks hennar við (Forseti hringir.) þann málflutning sem hefur verið haldið uppi af þeim sem vilja losa þjóðina undan þessari verðtryggingu.