151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var einfaldlega að benda hv. þingmanni á að þetta er einfaldasta, þægilegasta og skynsamlegasta leiðin fyrir okkur til að losna við verðtrygginguna, sem ég veit að hv. þingmaður er mjög á móti. Hv. þingmaður spyr ítrekað um það hvar áhrifin komi niður og ég vil endurtaka svar mitt við því: Af hverju ættu það að vera einhvern veginn frábrugðið fyrir okkur Íslendinga miðað við Færeyinga, miðað við Dani? Af hverju ættu efnahagsáföllin að vera einhvern veginn öðruvísi hér? Það er miklu frekar að við tryggjum stöðugleika, fyrirsjáanleika, sem eru alveg ótrúleg verðmæti fólgin í, með því að tengja okkur við stöðugan gjaldmiðil. Færeyingar eru með mun minna kerfi en þeim hefur farnast vel einmitt með því að tengja sig óbeint við evruna.

Varðandi vinnumarkaðinn og það sem við þurfum að taka upp þar, algerlega óháð upptöku nýs gjaldmiðils eða tengingu, er að mínu mati að fara í svipaðan farveg og er með norræna vinnumarkaðsmódelið. Við þurfum að hafa merkin á vinnumarkaði þannig að miðað sé við hvernig útflutningsatvinnuvegunum gengur varðandi launahækkanir. Það er eitthvað sem við verðum að fara að taka á. Ég veit að þetta er eitur í beinum sumra en ég tel mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins haldi áfram að vinna að því að koma upp stöðugu vinnumarkaðsmódeli, ekki ósvipuðu því og hefur viðgengist á Norðurlöndunum með góðum árangri fyrir heimilin og fyrirtækin í þeim löndum. Ég geri ráð fyrir því að við megum hafa Norðurlöndin sem viðmið.