151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:50]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir bæði verðtrygginguna og starfsháttu á vinnumarkaði. Það er auðvitað málefni sem aðilar vinnumarkaðarins verða sjálfir að finna út úr. Það hafa verið uppi hugmyndir um að taka í auknum mæli mið af því hvernig málum er skipað í nágrannaríkjum okkar en það er alfarið í þeirra höndum og ekki í verkahring okkar á Alþingi að segja fólki fyrir verkum í því efni. En hv. þingmaður nefnir hér stöðugleika og fyrirsjáanleika og staðreyndin er sú að okkur hefur farnast miklu betur í efnahagsmálum á liðnum árum eftir því sem stoðir atvinnulífsins hafa orðið fleiri og sterkari. Það stendur þannig á að við búum a.m.k. við mun meiri stöðugleika, til að mynda í verðlagi, en við sem hér erum höfum þekkt lengst af á ævi okkar. Það er náttúrlega orðin mikil breyting í íslenskum þjóðarbúskap og sömuleiðis vorum við komin í þá stöðu að í stað þess að vera nettó lántakandi erlendis frá vorum við orðin nettó lánveitandi til útlanda. Ég held að það væri ágætt í þessari umræðu að ræða málin út frá þeirri stöðu sem við erum í. En ég ætla að leyfa mér að ljúka þessu með því að segja að ég gjörsamlega (Forseti hringir.) frábið mér það að við Íslendingar eigum hagsmuni okkar undir því hvað hentar best fyrir Þýskaland og Frakkland.