151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:53]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Austurríki, Belgía, Kýpur, Eistland, Finnland, Grikkland, Írland, Ítalía, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Holland, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía og Spánn. Hér eru 17 ríki sem samkvæmt hv. þingmanni lúta fransk-þýskum hagsmunum og eru með efnahagskerfi sitt eftir fransk-þýskum forsendum. Þetta eru sem sagt þau 17 ríki, auk fyrrgreindra ríkja, sem nota evru og ekkert þessara ríkja hefur áform um að hætta að nota evru. Þessi ríki og þeir sem stjórna þessum ríkjum hafa sem sagt ekki frétt af því að þarna sé eingöngu um að ræða fransk-þýska hagsmuni. Fransk-þýskir hagsmunir, hvað er það? Eru Frakkland og Þýskaland í einhverju sérstöku bandalagi? Eru Frakkland og Þýskaland eitt ríki? Eru Frakkland og Þýskaland með algjörlega sömu hagsmuni í öllum efnahagsmálum sínum? Og ef maður lítur til sögunnar, ef við lítum til Evrópusögunnar, hafa Frakkland og Þýskaland haldist þar í hendur í samdrætti í gegnum aldirnar? Maður spyr sig. Eða getur hugsast að Frakkland og Þýskaland og fyrrgreind 17 ríki hafi komist að einhvers konar málamiðlun um það hvernig skuli háttað ákveðnum forsendum í samkeppnisumhverfi og efnahagsumhverfi ríkja sinna, svo allir sitji við sama borð eftir því sem hægt er og allir reyni að spila eftir svipuðum leikreglum? Getur hugsast að evran sé vel heppnað dæmi um það hvernig hægt er að vinna saman?