151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:58]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvaða þýðingu hefur það að rifja upp söguna? Það hefur töluverða þýðingu, hæstv. forseti, vegna þess að það er forsendan fyrir því að þessu bandalagi var komið á, það voru tvær heimsstyrjaldir á 20. öldinni. Hef ég frétt af því að Þjóðverjar og Frakkar hafi rík áhrif innan Seðlabanka Evrópu? Já, að sjálfsögðu hef ég frétt það og mér er fullkunnugt um það. Það var hins vegar ekki það sem lá í orðum hv. þingmanns hér áðan, það var ekki það sem maður dró út úr ræðu hans, heldur hitt að allt evrusamstarfið fari fram á forsendum Þjóðverja og Frakka. Að Þjóðverjar og Frakkar ráði þarna einir ferðinni og önnur ríki, þessi 17 ríki sem ég tilgreindi áðan, þessi 17 fullvalda ríki sem eru þarna af fúsum og frjálsum vilja, taka þátt í evrusamstarfinu og hafa ekki frétt af því að þau séu þarna í einhvers konar fransk-þýskri ánauð — þessi ríki öll og þeir sem þar ráða málum telja að efnahagsmálum þeirra sé betur borgið í þessu samstarfi. Og ekkert ríkjanna hefur í hyggju að hætta í því samstarfi.

Frakkar og Þjóðverjar. Það er kannski nær að draga hér aðeins fram raunverulegan vanda, og nú er ég að tala um frændur okkar Íra. Við höfum annars vegar samfélag sunnan megin þar sem allt er í blóma, þar sem er evrusamstarf og þar sem er Evrópusamstarf, og svo höfum við hins vegar norðan megin, á Norður-Írlandi, samfélag þar sem allt er í kaldakoli.