151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[18:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hv. þingmaður er farinn að tala um þýsk-franska ánauð er ljóst að þingmaðurinn telur alvarlega að sér þrengt hér í umræðunni því að það hefur enginn minnst á neina ánauð í þessu sambandi, heldur hefur verið talað um áhrif og hvaða sjónarmið vega þyngst við ákvarðanir í þeim stofnunum sem hafa verið ræddar.

En af því að hv. þingmaður er nú menningarlega sinnaður, eins og alþjóð veit, ætla ég að leyfa mér að segja að hann hlýtur að hafa fundið til með Grikkjum þegar við horfðum upp á meðferðina sem þeir máttu þola þar sem Grikkland, þetta forna menningarríki sem við lítum til með mikilli aðdáun, mátti þola að vera svipt fullveldi og sjálfstæði. Heil kynslóð mátti þola það að hún mun aldrei sjá fjárhagslega til lands eftir meðferðina sem Grikkland var látið þola. Þannig að hv. þingmaður, sem vill hugsa vítt og til margra átta, ætti að hugleiða hvernig færi fyrir okkur ef á reyndi. Reyndar þekkjum við það sjálfir vegna þess að Evrópusambandið beitti sér gegn okkur í Icesave-málinu þegar tvær Evrópusambandsþjóðir beittu sér af fullum þunga og alefli gegn okkur vegna einhverra krafna sem ekki voru lögvarðar og áttu með réttu lagi heima í þrotabúi þess banka sem um ræddi. En það vantaði ekki að það voru aðilar hér sem lögðust gegn eigin þjóð í því máli og er ömurlegt til þess að hugsa. Sumir þeirra beita sér nú ákaft fyrir því — sumir, sagði ég — að við göngum í þetta samband. En það skyldi aldrei verða.