151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:18]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að flytja þessa tillögu. Hún sýnir stefnu flokks hv. þingmanns og stefna þess flokks er kinnroðalaust að ganga í Evrópusambandið, hvorki meira né minna. Það er eitthvað sem hv. þingmenn verða að kannast við. Nú kemur þetta algjörlega kýrskýrt fram. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái einhverja galla við að ganga í Evrópusambandið. Eitt sinn var ég með hv. þingmanni í flokki og hv. þingmaður var þá fríverslunarsinni, barðist fyrir frelsi í viðskiptum. Ef við göngum í Evrópusambandið þá afnemum við viðskiptafrelsi okkar, hvorki meira né minna. Það liggur alveg fyrir. Við vitum alveg, hv. þingmaður þekkir það mætavel, hver munurinn er á viðskiptastefnu okkar og Evrópusambandsins. Hv. þingmaður veit að tollfrelsi okkar er um 90% meðan það er í kringum 20% eða 27% hjá Evrópusambandinu. Við vitum hvaða afleiðingar það hefði ef við gengjum inn og hér myndu tollar hækka. Við vitum það líka, virðulegi forseti, að við höfum náð árangri í fríverslunarviðræðum, bæði með EFTA og tvíhliða, en við hefðum ekki lengur samningsfrelsi ef við gengjum inn. Ég spyr hvort þetta þvælist (Forseti hringir.) ekkert fyrir hv. þingmanni þegar hún mælir með því að við göngum í Evrópusambandið.