151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:20]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sagan sýnir það, síðast bara þegar við tókum upp 80% af innri markaði Evrópusambandsins, að það styrkti okkur sem fullvalda þjóð og það styrkti ekki síst atvinnulífið, viðskiptalífið, fyrirtækin í landinu. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra veit af þeim könnunum sem hafa átt sér stað innan atvinnulífsins. Atvinnulífið allt styður aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, tvímælalaust. Ég man þá tíð þegar flokkur hæstv. ráðherra sagði: Við þurfum ekkert að fara í Evrópusambandið til að afnema tolla, við gerum það bara sjálf. Við gerum það bara sjálf. Það hefur ekki gerst nema í mjög takmörkuðum mæli. Hvernig er það? Höfum við nýtt það frelsi nægilega vel sem við höfum þó núna? Nei, ég vil ítreka að þau tækifæri sem við höfum fengið í gegnum viðskipti, efnahagssambönd, í gegnum Evrópusambandið, hafa styrkt okkur á alla lund. Þar fyrir utan horfi ég á stóru myndina, ekki eingöngu út frá efnahagslegu tilliti heldur ekki síður út frá menningarlegu, félagslegu en ekki síst út frá loftslagslegu tilliti þar sem loftslagsmálin tengjast beint efnahagslegum hagsmunum sem öðrum hagsmunum. Þar sé ég mörg og mikil tækifæri.

Ég vil segja á móti: Af hverju er þessi stóri gamli flokkur, enn þá stærstur, 20% eða rétt yfir það, svona hræddur við að treysta þjóðinni til að stíga þetta skref? Af hverju? Ég man ekki betur en að ég ásamt hæstv. ráðherra og fleirum segðum já við því að þjóðin fengi að segja sitt álit um viðræðurnar. Hvað hefur breyst? Hverjir eru það sem eru að toga í spottana?