151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:24]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvaða dómadagskjaftæði er þetta hér? Eru menn komnir í svo mikinn prófkjörsspreng að þeir fara með helber ósannindi? Sagan hefur sýnt okkur að alltaf þegar við tökum fullan þátt í alþjóðasamstarfi er hag Íslands betur borgið og það sama gildir um efnahagslegt tollfrelsi eða hvað það er. Er hæstv. utanríkisráðherra að segja það hér — með þessum málflutningi er hann í rauninni að opinbera sig með það sem hann hefur átt mjög í erfiðleikum með — og lýsa yfir miklum efasemdum gagnvart EES-samningnum? Er hann að gera það? Afsöluðum við okkur viðskiptafrelsi með því að vera aðilar að EES? Nei, við gerðum það ekki. (Gripið fram í.) Nei, við höfum sæti við borðið og það hefur sýnt sig. Er hæstv. ráðherra að segja að ríki eins og Danmörk, Svíþjóð, litla ríkið Malta, Lúxemborg, séu (Forseti hringir.) bara ekki með neitt viðskiptafrelsi af því að þau eru innan sambandsins? Hvaða vitleysa er þetta? (Gripið fram í.) Þeirra hag (Forseti hringir.) er betur borgið í samfloti stórra aðila og í samfloti fleiri aðila og það hefur sýnt sig líka, (Forseti hringir.) sýndi sig m.a. þegar við áttum í útistöðum við Breta og Hollendinga út af Icesave, (Forseti hringir.) að samstarf okkar og samflot við aðrar þjóðir skilaði meira öryggi fyrir íslenska borgara.