151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:28]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvert skref sem við höfum tekið í alþjóðasamstarfi hefur verið til að styrkja fullveldið. Við höfum beitt fullveldinu okkar þannig. Við ákváðum að beita okkar fullveldi 1949 með því að verða aðilar að NATO. Við ákváðum að beita okkar fullveldi til þess að styrkja okkur út frá efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum forsendum með því að vera aðilar að EFTA og síðan EES-samningnum og Norðurlandasamstarfinu, eins og ég hef sagt. Alþjóðasamskipti hafa verið Íslandi farsæl. Ég man það í fyrra, eða var það í hittiðfyrra, þegar við vorum að ræða þriðja orkupakkann að þá varð mönnum tíðrætt um það, sérstaklega af hálfu Miðflokks og einhverjir í Sjálfstæðisflokknum líka, að þriðji orkupakkinn væri ógnun við fullveldið. Nú er þriðji orkupakkinn búinn að vera í gildi í einhvern tíma og ég veit ekki til þess að fullveldið sé farið. Ekki rekur mig minni til þess.

Sú tillaga sem við ræðum hér er mjög hófsöm. Það kemur mér reyndar ekkert mjög á óvart þessi ofsi sem er t.d. hjá hæstv. utanríkisráðherra að ræða ekki tillöguna sem slíka, hvað við erum að gera þar. Við erum að tala um að þverpólitísk nefnd verði skipuð til þess að afla upplýsinga, gefa skýrslu þannig að þjóðin geti tekið ákvörðun um það hvort halda eigi viðræðum áfram. Það eru sumir miklir Evrópusinnar sem eru alveg brjálaðir út í okkur yfir því að við skulum vera að leggja það til. Þetta er varfærið skref til þess að tryggja þátttöku þjóðarinnar. Þetta er varfærið skref til þess að treysta þjóðinni. Það er mér algjörlega á huldu af hverju þeir sem oftast tala um fullveldið, oftast tala um sjálfstæði þjóðarinnar, treysta síðan ekki þjóðinni sjálfri til að taka næsta skref.