151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Örstutt af því að hv. þingmaður krefur mig enn og aftur svara. Ég ítreka að ein helsta röksemdin fyrir krónunni var að krónan dempaði eða kæmi í veg fyrir atvinnuleysi. Það var það sem hv. þingmaður sagði áðan. Núna erum við hins vegar bæði með verðbólgu, hærri en nokkurs staðar annars staðar út af veirunni og við erum líka með mesta atvinnuleysi í sögu þjóðarinnar. Gott og vel. Við skiljum alveg að það er fyrst og fremst út af ferðaþjónustunni en þetta er hlutfallslega miklu meira atvinnuleysi en aðrar þjóðir hafa tekið á sig vegna veirunnar, eitt og sér. Þannig að hér fer ekki saman hljóð og mynd. Sá mikli ventill sem íslenska krónan átti að vera til að varna því að ekki kæmi upp atvinnuleysi í þessum mikla mæli er ekki til staðar. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá var það alþjóðasamstarf, m.a. í gegnum EFTA-dómstólinn og aðild okkar þar, sem leiddi til þess að Icesave-skuldbindingarnar urðu okkur í hag. Það var á grundvelli alþjóðasamstarfs. (Forseti hringir.) Það er gott dæmi um að það er betra fyrir okkur að vera í samfloti þjóða en að vera (Forseti hringir.) ein á móti t.d. stórþjóðum eins og Bretar og Hollendingar eru.