151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:34]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Margar spurningar vakna við lestur þessarar þingsályktunartillögu, ekki síst vegna þess að hún er nokkuð rýr í roðinu þegar kemur að rökstuðningi fyrir því að við ættum að endurupptaka viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Fyrsta spurningin sem vaknaði hjá mér var reyndar: Af hverju kemur þessi þingsályktunartillaga hv. þingmanna Viðreisnar fram svona seint, á síðustu dögum þessa kjörtímabils? Vegna þess að eins og hv. flutningsmaður veit fellur þingsályktunartillaga sem þessi um sjálfa sig að kosningum loknum.

Mér finnst hins vegar sú spurning blasa við sem lýtur kannski að helsta hagsmunamáli Íslendinga þegar kemur að viðræðum við Evrópusambandið, og við hokin af reynslu, og mig langar því að spyrja hv. þingmann hver samningsmarkmið Íslands væru í nýjum aðildarviðræðum við Evrópusambandið í sjávarútvegsmálum, því að ekki er minnst einu einasta orði á sjávarútvegsmál í þingsályktunartillögunni, ekki einu einasta orði.

Svo rek ég líka augun í tilvísun til Icesave-deilunnar, margblessaðrar. Ég var ekki á þingi þegar það mál var til umfjöllunar en ég man ekki betur en að maður hafi gengið undir manns hönd hér á þinginu, fyrir utan örfáa þingmenn, til að semja við Breta og Hollendinga. Hér er fullyrt að án regluverks Evrópusambandsins og EFTA-dómstólsins hefðu Bretar og Hollendingar staðið betur að vígi gagnvart Íslandi. Ég myndi gjarnan vilja fá aðeins skýringu á þessari staðhæfingu.