151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:38]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði bara einfalda spurningu til hv. þingmanns um hver hún teldi að ættu að vera samningsmarkmið Íslands í sjávarútvegsmálum í viðræðum við Evrópusambandið. Eins og ég nefndi erum við hokin af reynslu í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Við lukum við samningsdrög af mörgum af þeim köflum sem liggja að baki slíkum viðræðum. En út af stóð alltaf sá kafli sem skiptir mestu máli, í rauninni eini kaflinn, og hann er um nýtingu náttúruauðlinda Íslendinga, sjávarútveginn, þannig að við erum alveg hokin af reynslu. Ég held að hv. þingmaður hljóti að hafa einhverjar hugmyndir um það hver samningsmarkmið Íslands ættu að vera í því og ætti að kynna það þinginu til umræðu hér um þessa þingsályktunartillögu.

Ég ítreka síðan spurningu mína um hvernig sú fullyrðing geti staðist að Icesave-deilunni hafi verið bjargað af Evrópusambandinu. Ég hef aldrei heyrt annað eins.