151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:54]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gengst alla vega við því að sameiginleg sjávarútvegsstefna sé sameiginleg. Hv. þingmaður heldur því ranglega fram að ég hafi ekki lagt áherslu á sjálfbærni í pólitík minni, sem ég alltaf gert, hv. þingmaður talar þar þvert gegn betri vitund. Ég veit ekki til þess að neinn vilji taka upp sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Hins vegar hafa mjög margir kollegar spurt mig hvernig okkur hafi tekist að ná þeim árangri sem við höfum náð í sjávarútvegsmálum. Eftir því er tekið og við ráðum því alveg sjálf. Af því að hv. þingmaður nefndi að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af útlendingum þá vitum við það alveg. Og svo geta menn verið þeirrar skoðunar að við eigum að opna á erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi. Þá gerum við það bara, en við þyrftum að vera með það alveg opið ef við værum í Evrópusambandinu. Ég sakna þess örlítið að hv. þingmaður skyldi ekki svara því hvernig henni liði með að afnema viðskiptafrelsið og færa það yfir til Brussel. En kannski kemur það svar einhvern tímann.

Ég var spurður hvort ég treysti þjóðinni. Ég treysti þjóðinni til allra góðra verka en hins vegar er ég andsnúinn því að við göngum í Evrópusambandið. Ég hef alltaf verið það og ég ætla ekki að gera neitt sem í mínu valdi stendur til að stíga einhver skref í þá áttina. Ég ætla bara ekki að gera það.

Varðandi algerlega ótengt mál, hvort það hafi verið hagsmunir okkar að taka þátt í bóluefnakaupasamstarfinu við Evrópusambandið, er hv. þingmaður svolítið að nefna snöru í hengds manns húsi því að þar hefur framkoma Evrópusambandsins og, það sem hef ég lagt áherslu á, brot á EES-samningnum verið fyrir neðan allar hellur. Ég held að ef við ættum að nefna rök fyrir því að við ættum að láta (Forseti hringir.) þetta bandalag eiga sig þá væri þetta það. Hv. þingmaður segir einnig að ég vilji ekki stuðla að uppbyggilegri umræðu. (Forseti hringir.) Ég hef verið að gefa út skýrslur með staðreyndum um fríverslun, um EES (Forseti hringir.) til að stuðla að uppbyggilegri umræðu, en hv. þingmaður hefur augljóslega ekki kynnt sér þær skýrslur.