151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:59]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi núna slegið heimsmet í útúrsnúningi, eða í besta falli misskilningi, með því að túlka orð mín með þessum hætti. (Gripið fram í.)Ég treysti þjóðinni svo sannarlega og við greiðum atkvæði í alþingiskosningum þar sem við bjóðum fram. Ég vona að hv. þingmaður verði búinn að kynna sér betur hvað felst í að vera í ESB og hvað felst í að vera í EFTA. Ég held að hv. þingmaður ætti að fá einhvern annan heimildarmann í símann hjá sér þegar hún spyrst fyrir um þessi mál. Hvað þýðir að vera í EFTA? Hv. þingmaður sagði: Þeir gera samninga fyrir okkur.

Við afnemum ekki viðskiptafrelsið. Við getum gert alla þá samninga sem við viljum. Af hverju heldur hv. þingmaður að við séum með Hoyvíkur-samninginn? Gerði EFTA Hoyvíkur-samninginn? Af hverju heldur hv. þingmaður við höfum gert samning við Kína? Gerði EFTA samninginn við Kína fyrir okkur? Nei, vegna þess að við höfum viðskiptafrelsi. Þegar EFTA-ríkin vilja gera þau saman samninga en þau eru með sitt viðskiptafrelsi. Þess vegna erum við í Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Ef við færum í ESB værum við ekki lengur í þeirri fjölþjóðlegu stofnun, af því að hv. þingmaður leggur svo mikla áherslu á það.

Og það er agalegt, virðulegi forseti, og sýnir hvað ástandið er alvarlegt þegar forystumaður í flokki sem er með eitt stefnumál, að ganga í ESB, þekkir ekki þessi mál. Það er bara miklu alvarlegra en það hljómar, miklu alvarlegra. Hv. þingmaður má lifa með því að hún er að leggja til að við göngum í ESB. Ég mun gera allt hvað ég get til að koma í veg fyrir það. (ÞKG: Ætlar þú að styðja þessa tillögu?) Ég ætla svo sannarlega ekki að styðja þessa tillögu. Ég veit ekki hvernig hv. þingmaður gat mögulega túlkað það svo. En aðalatriðið er að það hafi afhjúpast í þessari umræðu (Forseti hringir.) að hv. þingmaður, formaður Viðreisnar, áttar sig ekki á því að (Forseti hringir.) ef við göngum í Evrópusambandið þá afnemum við viðskiptafrelsi okkar.