151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[19:14]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, að sjálfsögðu var það ekki Evrópusambandið sem stofnaði hina svokölluðu Icesave-reikninga, þ.e. þessa bankareikninga einkafyrirtækja, íslenskra fjármálafyrirtækja, í Evrópusambandslöndunum. En þegar í harðbakkann sló og þeir bankar fóru á hausinn, menn þekkja þá sögu alla, þá var það stofnun Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna, Eftirlitsstofnunin, sem höfðaði málið á hendur Íslandi til að herja fram ábyrgð almennings á Íslandi á skuldum þessara einkafyrirtækja, algerlega fráleitt. Auðvitað myndu sumir segja, en ég ætla ekki að gera það: Ja, við vorum búin að innleiða regluverk Evrópusambandsins. Það regluverk gerði þessum íslensku fyrirtækjum kleift að stofna banka í Evrópusambandslöndunum. Ég veit, og reyndar er ekki hægt að svara fyrir það, að kannski hefðu íslensk fyrirtæki alveg getað gert það þótt Ísland hefði ekki verið með EES-samninginn, í samkomulagi við Evrópusambandið. Það kann vel að vera að íslenskir bankar hefðu getað stofnað bankareikninga í Bretlandi og í Hollandi þó að Ísland hefði ekki verið í EES, það kann vel að vera. Það eru alls konar alþjóðlegar fjármálastofnanir með útibú í Evrópu sem koma lengra að en frá Íslandi, sem sagt ekki í gegnum EES-samninginn. Ég ætla ekki að halda því fram og ég ætla ekki að halda því fram að það sé slæmt í sjálfu sér að Ísland hafi sem líkastar reglur á fjármálamörkuðum og löndin í kringum okkur og lönd sem við eigum mest í viðskiptum við, bara eðlilegar reglur. En reglurnar þurfa samt sem áður líka að taka mið af sérstökum hagsmunum Íslands, sérstökum aðstæðum sem geta verið á Íslandi og þar er okkur oft gert erfitt fyrir. Að sjálfsögðu ber Evrópusambandið ekki ábyrgð á bankareikningunum en það ber ábyrgð á málshöfðuninni og kröfunni. Krafan var löglaus af hálfu þessara Evrópusambandsríkja.