151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[19:16]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að málalok hafi verið farsæl í þessari leiðu deilu og ég er líka sammála hv. þingmanni um að það hafi verið fráleitt að íslenskur almenningur ætti að bera kostnað af því ævintýri. Því verður þó ekki neitað að íslenska ríkið hafði tilteknar skuldbindingar varðandi þessa reikninga og hafði undirgengist tilteknar skuldbindingar varðandi þá vegna skráningarfyrirkomulags. Og þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir höfðu íslenskir ráðamenn og forsvarsmenn Landsbankans þverskallast við að koma þessum reikningum í var með því að skrá þá í réttum löndum. Því verður heldur ekki neitað að skömmu fyrir fall Landsbankans hafði þáverandi fjármálaráðherra Íslands fullvissað kollega sinn í Bretlandi um að Íslendingar tækju fulla ábyrgð á þessum reikningum. Ef til vill töldu menn í Evrópulöndunum sig hafa einhverja ástæðu til að ætla að íslenska ríkið myndi gangast í þessar tryllingslegu ábyrgðir. En þá vaknar eiginlega sú spurning í framhaldinu: Þegar þáverandi fjármálaráðherra, sem var reyndar fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, fullvissar enskan kollega sinn um að Íslendingar gangist í þessar ábyrgðir, var þá ekkert að marka hann?