151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[19:18]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Íslenska ríkið hafði ekkert skuldbundið sig til þess að gangast í fullkomnar ábyrgðir fyrir þessa bankareikninga erlendis. Íslenska ríkið hafði innleitt reglur Evrópusambandsins um innstæðutryggingarsjóð. Hann var rekinn nákvæmlega samkvæmt forskrift. Hann var bara ekki nógu digur, ekki frekar en aðrir sambærilegir sjóðir í allri Evrópu, og ríkið hafði aldrei skuldbundið sig til þess að fylla á með þeim hætti sem ætlast var til, þ.e. íslenskir skattgreiðendur sem eru ríkið. Það lá alveg fyrir frá upphafi hvernig þetta var. Kröfur um eitthvað annað en að þessi sjóður stæði einn og sér undir þessum skuldbindingum voru bara fullkomlega löglausar. Þessi Evrópusambandsríki höfðuðu málið með liðsinni ESA en fóru erindisleysu sem betur fer — það koma stundum góðir dómar þótt þeir séu kveðnir upp utan Íslands. Það blasti við að þetta voru löglausar kröfur. Sú fullyrðing að Icesave-deilan hafi verið leyst vegna regluverks Evrópusambandsins er algjörlega úr lausu lofti gripin. Svo bítur Evrópusambandið höfuðið af skömminni þessa dagana og dettur í hug, af því að menn gátu ekki fyllt innstæðutryggingasjóðinn á sínum tíma, hvorki Ísland né önnur ríki, að gera kröfu um það á öll ríkin sem við þurfum að innleiða — það er sagt að við þurfum líka að innleiða það á Íslandi — að hækka fjárhæðina sem á að liggja í innstæðutryggingarsjóði og ríkistryggja sem sagt allar fjármálastofnanir hér á landi. Ég segi nei við því. Takk fyrir, sama og þegið. Hvort sem við stöndum utan eða innan Evrópusambandsins segi ég nei takk við því.