151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[19:20]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil, eins og aðrir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, þakka fyrir þessa umræðu. Það er alltaf gaman að taka þátt í svona stórri og mikilli umræðu eins og umræðan um Evrópusambandið er. Ég er samt alveg undrandi á að þetta mál sé sett á dagskrá núna þegar við höfum um margt annað að hugsa í þjóðfélagi okkar og þurfum að nýta krafta okkar töluvert við að takast á við faraldur og endurreisa efnahag okkar og atvinnulíf og samfélagið í heild sinni. En er það kannski ástæðan fyrir að þetta er fyrst núna á dagskrá? Er öll sú upplýsingaóreiða sem er í kringum Covid-faraldurinn og að mikið er um að vera hér; heimsfaraldur, jarðhræringar með eldgosi og öðru slíku, akkúrat ástæðan fyrir því að þetta mál kemur fram núna, og kannski þá í skjóli nætur? Treysti Viðreisn sér ekki til að koma með þessa umræðu fyrr? Hvar hafa þau verið allt kjörtímabilið með þessa umræðu? Svo koma þau með hana núna þegar nákvæmlega ekki neinn salur er fyrir henni, að ég tel. Við sjáum nú hvernig bóluefnasamningarnir hafa gengið. Það er búið að vera ýmislegt í gangi í kringum það, Brexit og fleira. Og nú er nýbúið að banna okkur að kaupa kókópöffs. Að vísu vilja þeir ekki viðurkenna það heldur segja þeir að það hafi verið framleiðandans að ákveða þetta. Þeir viðurkenndu að þeir væru forræðishyggjuþjóð, að þeir væru með strangar reglur um hvað væri hollt fyrir okkur og því mætti ekki selja kókópöffs hér. Þetta er akkúrat tíminn sem ákveðið er að setja þetta mál á dagskrá. En við fögnum því bara og tökum umræðuna og veigrum okkur ekki við því. Það er nokkuð ljóst.

En ég tel þetta kolrangan tíma til að fara að ræða Evrópusambandið, af því að það sem við þurfum á að halda í dag, íslensk þjóð, íslenskt atvinnulíf, íslenskt samfélag, er að einfalda regluverkið og draga úr bákninu. Við höfum hafið þá vegferð, en mikið betur má ef duga skal. Því er ekki rétt að fara að búa til eitthvert rosalega flókið bákn með embættismannakerfi um það hvort og hvernig við eigum að halda áfram viðræðunum, með fullt af ráðuneytum og sérfræðingum þannig að það sé nú nógu mikið af nefndum og embættismönnum, og fólkið sem á að fá vinnu við þetta til þess hugsanlega að ganga inn í eitthvert enn þá stærra bákn þar sem við þurfum að bera allt undir einhverja aðra og fjölga hér embættismönnum og opinberum starfsmönnum til muna. Það er ekki það sem við þurfum. Við þurfum að einbeita okkur að því að einfalda regluverkið. Við þurfum að vera varfærnari þegar við innleiðum það regluverk sem við erum þó aðilar að í gegnum EES-samninginn. Við þurfum við að vinna að því að einfalda kerfið og vera skilvirkari og passa hagsmuni okkar. Við eigum fullt í fangi með það í dag og við skulum nú ekki fara að bæta gráu ofan á svart, bara alls ekki.

Mikið var rætt, og var í umræðunni á undan þessu, um gjaldmiðlamálin, um húsnæðismálin, um húsnæðiskostnaðinn og annað slíkt. Ég held að Viðreisn ætti að líta sér nær þegar verið er að tala um hátt húsnæðisverð. Viðreisn er í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem er lóðaskortur, þar sem eru himinhá innviðagjöld, þétting byggðar og allt gert til að hækka húsnæðiskostnað, útsvar er í botni, fasteignagjöld og annað slíkt er í hæstu hæðum. Ég held að við gætum náð gríðarlegum árangri bara með því einu að laga til á ýmsum stöðum hér heima áður en við förum að hoppa á einhverjar töfralausnir frá Evrópu. Við höfum náð góðum árangri í húsnæðismálum þrátt fyrir að vera ekki í Evrópusambandinu. Við höfum afnumið stimpilgjöld af lánsskjölum þannig að það er orðin gríðarleg samkeppni um lánsfjármagn. Vextir þar hafa lækkað. Fólk getur endurfjármagnað sig. Það getur ráðið hvort það sé með verðtryggt eða óverðtryggt lán án kostnaðar.

Við höfum líka verið með ábyrga fjármálastjórn og náð hér gríðarlegum árangri í efnahagsmálum, þannig að vextir hafa líka lækkað út af því. Það hefur verið stöðugleiki, verðbólga hefur verið lág, allt án aðstoðar Evrópusambandsins. Svo heyrist alltaf þetta, að fara í viðræður til að sjá hvað við fáum, til að meta hagsmuni, til að kíkja í pakkann, eins og oft er sagt. Við höfum nefnilega nákvæmlega séð hvað það kostar að kíkja í pakkann, eins og þegar viðræðurnar fóru því miður af stað 2009. Þá byrjaði Evrópusambandið strax að segja að það að kíkja í pakkann þýddi að við þyrftum að innleiða samninginn til þess að hægt væri að sjá hvað væri í pakkanum. Við vitum alveg hvað það er. Við sáum afleiðingarnar alveg um leið.

Þannig að það er bara miklu meira en að segja það að kíkja í pakkann og sjá hvað er í boði. Ef við kíkjum í pakkann erum við komin með annan fótinn og rúmlega það inn í Evrópusambandið. Þá strax fer Evrópusambandið að hafa áhrif á forgangsröðun hjá okkur í fjárlögum og forgangsröðun í okkar málum. Það er bara þannig.

Ég segi: Við skulum fara okkur varlega, við skulum nýta sjálfstæði okkar. Við skulum nýta krafta okkar til að nýta þau tækifæri sem við höfum, minnka okkar eigið bákn og ná árangri með auðlindir okkar, ná árangri með landsgæði okkar, ná árangri með mannauð okkar. Við höfum sýnt það á svo margan hátt hvað við getum staðið okkur vel og náð góðum árangri, bara með því að treysta á okkur sjálf en í góðri samvinnu við aðra.

Við höfum alltaf talað fyrir því og sýnum það á svo margan hátt að við þurfum að hafa frelsi til að leita í fleiri áttir en Evrópuáttina. En við þurfum að hafa frelsi til þess að geta staðið á eigin fótum og náð árangri á okkar eigin forsendum. Það er gríðarlega mikilvægt. Við höfum sýnt það á undanförnum árum að við getum náð árangri á öllum þeim sviðum sem talið er í þessari þingsályktunartillögu að sé mikilvægt að ná. Hér stendur: „Alþingi hefur ekki ályktað á annan veg síðan“, og gert er mikið úr því þegar fram kom tillaga um að draga umsóknina til baka. Ég tel að ef Alþingi hefur ekki áhuga á að afgreiða þessa tillögu núna sé það búið að álykta síðan þetta var gert, og þá vill það ekki taka þetta mál á dagskrá.