151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[19:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin sem eru þá í andstöðu við raddir ráðherra ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sem hafa verið einhuga um að samflotið við Evrópu hafi verið eina raunhæfa leiðin í þeim efnum. Staða Íslands er nú þannig í tölulegu samhengi, ef við skoðum Norðurlöndin, ef við skoðum Evrópuríki, og Bretland og Bandaríkin, sem hafa farið sínar eigin leiðir, að árangurinn er þannig að eftir honum er tekið vegna þessa samstarfs. Ég myndi þá vilja fylgja því eftir með þessari spurningu til hv. þingmanns: Með hvaða hætti telur hann að Ísland hefði náð betri árangri í þessum efnum en við gerum núna?

Hv. þingmaður varði orðum sínum í stöðu húsnæðismála hér á landi. Mig langar að benda honum á að það er nú einfaldlega þannig að tölulegar staðreyndir og tölulegur veruleiki Íslands og ungra Íslendinga er sá að það kostar okkur meira að eignast fasteign en gerist annars staðar vegna vaxtaumhverfisins sem við höfum búið við, sem er bein afleiðing af gjaldmiðlinum okkar. Stimpilgjöldin eru ekki stóra svarið þar.