151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[19:35]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil einmitt byrja að tala um bóluefnasamstarfið. Þar hefur Evrópusambandið, með reglugerð um útflutningstakmarkanir á bóluefni, beinlínis brotið gegn EES-samningnum. Það sýnir bara hagsmunina innan Evrópusambandsins, þeir eru alltaf í hagsmunagæslu og virða litla Ísland bara algjörlega að vettugi þegar kemur að þeirra eigin hagsmunum, þannig að það sé á hreinu. Við höfum mótmælt þessu algerlega, þetta er brot á EES-samningnum, þessi reglugerð um útflutningstakmarkanir, svo það sé algerlega á hreinu.

Varðandi húsnæðismálin enn og aftur er það líka staðreynd að íslensk ungmenni kaupa sér dýrara húsnæði hér á landi en í Evrópulöndunum af því að þau hafa atvinnu, þau hafa efni á því. Það er nú annað en ungmenni víða í Evrópusambandinu. Við höfum náð gríðarlegum árangri í að lækka kostnað við íbúðarkaup. Við erum með mörg úrræði. Hægt er að setja séreignarsparnað skattfrjálst inn. Við erum búin að afnema stimpilgjöld af lánsskjölum. Ég hef sjálfur lagt fram mál hér, sem hefur því miður ekki klárast en ég legg mikla áherslu á klára til að ná enn betri árangri, varðandi afnám stimpilgjalda almennt af íbúðarhúsnæði, af því að ég tel það bara vera einn skattinn. Það getur vel verið að vextirnir séu aðeins hærri, eða töluvert hærri hér en mörgum stöðum Evrópu, en þeir hafa farið lækkandi af því að við höfum náð góðum árangri og við höfum skapað samkeppni þar. En við getum náð enn betri árangri og ódýrara húsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu með afnámi innviðagjalda og lækkun fasteignagjalda og annars slíks, sem og draga úr lóðaskorti, og ég veit ekki hvað og hvað.