151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrirtæki stafvæðast, við þróum gervigreind og sjálfvirknivæðum fleiri og stærri hluta samfélagsins. Þegar samtvinnast viðskiptahættir hins frjálsa markaðar og tækni fjórðu iðnbyltingarinnar verðum við að standa vörð um vinnandi stéttir samtímans, ellegar fáum við ekki lengur ráðið við anda undirdjúpanna sem fjórða iðnbyltingin kemur til með að vekja upp. Uppbrot á samfélagsgerðinni mun reyna á innviði samfélagsins en þar hefur ríkisstjórnin leitt með góðu fordæmi og byggt brýr inn í framtíðina, brýr sem treysta grunngildi lýðræðisins, mannréttindi, jafnrétti, jöfnuð og velferð. Í því tilliti má benda á aðgerðaáætlun vegna fjórðu iðnbyltingarinnar í 27 liðum og stefnu Íslands um gervigreind.

Í öllum breytingum felast tækifæri. Með sjálfvirknivæðingu hefur opinber þjónusta færst nær fólki um allt land. Þrúgandi umsóknarferli og biðraðir heyra sögunni til með tilheyrandi hagræðingu fyrir fólk og stofnanir en ekki síður fyrir umhverfið. Í sjáanlegri framtíð verður heilbrigðisþjónusta aðgengileg fólki um land allt á nýjan hátt og það hefur reyndar þegar hafist. Það kemur til með að spara löng ferðalög og það sparar líka útblástur. Þessa þætti ber að treysta þegar við höldum áfram héðan, að fjórða iðnbyltingin verði í þágu almennings í landinu en ekki á forræði fjármagnsins eins og hætt er við.

Forseti. Það er ekki úr vegi þegar við stöndum frammi fyrir þeim áskorunum sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér að veita því athygli sem Marx benti á, að við endalok sögunnar væru það vélar og tæki sem ynnu verkin og maðurinn væri þá frjáls undan brauðstritinu. Hvort það er sú framtíð sem við stefnum að er að öllu leyti í okkar höndum.