151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þarf að ræða hér mál sem þingmönnum er kannski hvað minnst annt um að ræða vegna þess að það er tabú, það er óþægilegt, en það er líka alvarlegt. Það er 210. gr. almennra hegningarlaga, grein sem bannar klám á Íslandi, nánar tiltekið framleiðslu og dreifingu. Nýlega hefur orðið mikil umræða á netinu um hlaðvarp þar sem fram hefur komið fólk sem starfar við framleiðslu téðs efnis, sem er ýmist kallað erótík eða hvaðeina, hvað við köllum það er svo sem ekki aðalatriðið. Fólk í þessum kynlífsiðnaði verður fyrir aðkasti og hluti af því er að aðrir slengja framan í fólk í kynlífsiðnaði þessari lagagrein, 210. gr. almennra hegningarlaga.

Nú er fullkomlega eðlilegt, og nauðsynlegt reyndar, að fólk tali um mögulegar neikvæðar afleiðingar kláms, bæði framleiðslu, dreifingu og neyslu. Það er sjálfsögð og þörf umræða, virðulegi forseti, en 210. gr. almennra hegningarlaga fjallar ekki um að vernda fórnarlömb mansals eða hjálpa fólki úr aðstæðum þar sem það neyðist til að taka þátt í kynlífsiðnaði, né heldur fólki sem gerir það af fúsum og frjálsum vilja ótilneytt. Sú grein fjallar um að refsa því fólki, virðulegi forseti. Höfum það alveg á hreinu, þetta er refsiákvæði. Það er ekki bara tímaskekkja, virðulegi forseti, það kemur niður á hagsmunum sama hóps, mögulegra fórnarlamba mansals, að hafa slíka grein og að mínu mati eigum við að afnema hana. Ég veit að þetta er tabú og getur verið erfitt samtal, fólki er heitt í hamsi þegar kemur að þessum málefnum og ekki við neinu öðru að búast og við skulum bara öll bera virðingu fyrir því. En höfum það á hreinu: Það er aldrei siðlegt eða í lagi að refsa fórnarlömbum.