151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fram undan eru bæði sumardagurinn fyrsti og dagur umhverfisins. Þá er upplagt að staldra við og hugleiða leiðir til að draga úr sóun á auðlindum jarðar, leiðum til að auka nýtni og samvinnu í hringrásarhagkerfinu. Nú eru 50 ár síðan nytjaskógrækt hófst á Íslandi og í 30 ár hefur bændum í skógrækt fjölgað ár frá ári, bændum sem skuldbinda sig til að byggja upp auðlind og ráðstafa hluta af landi sínu undir skóg. Það sýnir sig að hér má rækta skóga til fjölþættra nytja. Fjármögnun uppbyggingar skógarauðlindarinnar hefur verið samfélagslegt verkefni að mestu þótt líkur séu á að atvinnulífið og einkaaðilar komi í vaxandi mæli að því, m.a. vegna kolefnisbindingar. Hvernig ætlum við að nota skógarauðlindina hjá bændum, skógræktarfélögum og í þjóðskógum? Það er flókið verkefni að koma af stað viðarnytjum og til að komast áfram fyrstu skrefin getur þurft hvata og það getur þurft að ryðja óvæntum hindrunum úr vegi.

Tvær viðarvinnslur eru nú þegar starfandi á vegum einkaaðila á Austurlandi. Önnur leggur áherslu á vinnslu borðviðarplanka, klæðningu og vinnslu eldiviðar. Hin vinnslan framleiðir viðarköggla og viðarspæni og hráefnið er bæði endurunnið hreint timbur og grisjunarviður. Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur stutt við áhugaverð þróunarverkefni þessara fyrirtækja, svo sem markaðssetningu á viðarperlum til húshitunar á köldum svæðum, sem er mjög áhugavert hringrásarverkefni. Viðarkyndistöð sem nýtir viðarkögglana hitar nú upp húseign Fljótsdalshrepps. Það er því ljóst að nú þegar eru til staðar möguleikar til að auka sjálfbærni einstakra byggða og þar með samfélagsins alls með þróun viðarnytja. Hvernig geta opinberir aðilar hvatt til þess? Hvert er hlutverk mismunandi ráðuneyta og stofnana eins og Skógræktarinnar í því verkefni?