151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Sex punktar um slæma dýravernd á Íslandi:

1. Vissuð þið að á Íslandi má veiða 15 fuglategundir sem þó eru á skilgreindum hættulistum? Þar á meðal er hrafninn. Honum hefur fækkað mjög mikið en er samt réttdræpur allt árið.

2. Vissuð þið að á Íslandi eru nú starfrækt níu minkabú með einungis 30 störfum? Skiptir minkarækt því nær engu máli efnahagslega. Ræktun minka vegna skinns þeirra er hins vegar algjör tímaskekkja enda eru pelsar ekki nauðsynjavara.

3. Vissuð þið að Ísland er eitt af fáum Evrópuríkjum þar sem blóðmerahald hrossa er stundað? Hér er tekið blóð úr 5.000 fylfullum hryssum til að hægt sé að auka frjósemi svína.

4. Vissuð þið að Ísland er eitt af fáum ríkjum heims sem leyfir veiðar á næststærsta dýri jarðar, sem er langreyður? Hún er í útrýmingarhættu sé litið til heims-válista.

5. Vissuð þið að íslensk stjórnvöld hafa veitt heimild til veiða á selategundum, þar með talið á landsel sem er hér á landi í bráðri útrýmingarhættu? Til viðbótar hafa þúsundir sela drepist árlega hér sem meðafli í íslenskum netum.

Að lokum: Vissuð þið að um 6.000–7.000 refir eru drepnir hér árlega? Væri ekki betra að bæta æðarkollubóndanum tjónið beint ef hann verður fyrir slíku í stað þess að stráfella þennan eina upprunalega landnema Íslands?

Herra forseti. Í mínum huga á umhverfisvernd ekki bara að snúast um að vernda grjót og urð heldur einnig um að vernda hið fábreytilegt dýralíf Íslands. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég vil ekki bara vera þingmaður manna heldur einnig þingmaður dýra.