151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Skóli án aðgreiningar er hugtak sem gjarnan er notað yfir hugmyndafræði sem miðar að því að forðast handahófskennda aðgreiningu einstakra nemenda frá jafnöldrum sínum og jafnvel að tryggja að þeir fái þjónustu í skólunum sem þeir myndu ganga í ef þeir tilheyrðu hinum breiða hópi normalnemenda. Það er jákvætt að skipuleggja skólastarfið þannig að nemendum sé ekki mismunað eftir námsþörfum. Við munum öll þá fordóma sem fylgdu gamla kerfinu. Börn voru uppnefnd og skilin út undan vegna námsörðugleika. Það vill enginn snúa aftur í það kerfi. Ég get ekki séð að stefna um skóla án aðgreiningar valdi lestrarvanda barna eða að breytingar á þeirri stefnu muni leysa þann vanda. Vandann þarf að leysa með aukinni áherslu á lestrarkennslu, samvinnu foreldra og kennara um lestrarnám og með því að tryggja nægilegt fjármagn til grunnskólastigsins svo sinna megi sérþörfum nemenda með víðtækari hætti. Lesblinda, skrifblinda, ADHD, talmein og fleira hefur ekkert með gáfur að gera. Þvert á móti hefur það sýnt sig að þeir sem eru háðir þessum annmörkum eru yfirleitt með hærri gáfnavísitölu og greindari.

En hvar liggur vandamálið? Jú, það liggur í biðlistunum. Biðlistar til að komast á biðlista eftir greiningu eða aðstoð. Það er ömurlegt kerfi að við skulum vera með hundruð barna á biðlista til að reyna að leysa úr þeirra vanda og þau þurfa kannski að vera á biðlista í tvö, þrjú ár, tveggja ára eða fjögurra ára börn og börn sem eru komin á skólaaldur. Það segir sig sjálft að með því að setja barn á slíka biðlista erum við að valda því gífurlegu tjóni. Ég kem að því í seinni ræðu minni.