151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að renna í gegnum það í huganum hversu mikið hefur breyst frá því að sá sem hér stendur sat á skólabekk í barnaskóla. Hlutirnir voru í mínum huga einhvern veginn mun einfaldarari. Það var bara skipt í A- og B-bekk, þeir sem komust yfir einhver mörk að mati skólastjórnenda voru settir í A en hinir í B. Þarna réðust örlög margra til framtíðar ef við horfum til dæmis til lesblindu sem kannski var litið á sem part af slakri greind. Ekki var litið á hana sem lesblindu heldur gat viðkomandi bara ekki lesið með góðu móti og þá var hann settur í B-bekk. En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og gríðarlegar framfarir orðið. Því ber að fagna. En við erum samt enn þá og munum í framtíðinni vera að glíma við hvað við getum gert betur.

Hér hefur verið talað um PISA-rannsókn og lesskilning. Þar hefur komið fram að Finnar standa mjög framarlega í þessum málum enda hafa þeir sett í þau gríðarlega orku, mótað sér stefnu og gengið í málin af myndarskap, miklu fjármagni og slíku. Þeir hafa sýnt það í „praxís“ að þeir standa mjög framarlega. Hér heima hafa verið gerðar margar breytingar til góðs og hugmyndir hafa verið settar fram en þeim hefur yfirleitt ekki fylgt fjármagn. Það veldur of miklu álagi á kennara og starfsfólk í skólum sem fyrir er. Kulnun í starfi er allt of algeng hjá skólafólki vegna of mikils álags. Verið er að breyta kerfinu til betri vegar en fjármagn vantar svo að hægt sé að fjölga starfsfólki í skólum.