151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:13]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir að hefja þessa umræðu. Hæstv. ráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fór í ræðu sinni ágætlega yfir þau forgangsverkefni sem hún setti af stað þegar hún tók við ráðuneytinu og aðgerðir og árangur þeirra. Hún tók fram að sérstaklega hefði verið horft til Finnlands og einnig Svíþjóðar varðandi ákveðna hluti. Sú sem hér stendur á sæti í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og við höfum nýlega afgreitt þingsályktun frá ráðherra um menntastefnu sem nokkrir hafa nú þegar nefnt. Það var mjög fróðlegt að rýna það mál og margt af því sem hv. þingmenn hafa sagt hér í dag get ég tekið undir, t.d. varðandi áherslur okkar hingað til á leshraða. Auðvitað ætti áherslan að vera á lesskilninginn, ég er sammála því, og kannski einnig á aukinn sveigjanleika skólastjórnenda til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda vegna þess að við erum öll sammála því að það þurfi að koma til móts við þennan fjölbreytta hóp sem við jú erum, bæði börn og fullorðnir, þannig að markmiðum skólastarfsins sé náð.

Mig langar sérstaklega að nefna þrjú atriði. Ég sé að tíminn er náttúrlega að renna frá mér. Fyrst varðandi þroskaprófin. Það kom fram hjá nefndinni að þroskapróf hafa ekki verið uppfærð og endurnýjuð með tilliti til nýrrar þekkingar um langa hríð. Það er vöntun á þroskaprófum en þau eru grundvöllur þess að hægt sé að meta hvers konar stuðning nemendur þurfa að fá á fyrri stigum. Þetta skarast auðvitað við þennan snemmtæka stuðningi sem við leggjum áherslu á. Einnig hvað varðar námsgögn, endurnýjun og uppfærslu námsgagna, við gætum gert betur þar, t.d. í stafrænni útgáfu námsgagna.