151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:16]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Sú var tíð að í skólakerfinu var börnunum skipt í tossa og bossa. Ég held að enginn sakni þeirra tíma. Sú meginhugsun liggur að baki skóla án aðgreiningar að sérhvert barn sé sérstakt og búi yfir sérstökum eiginleikum sem þurfi að laða fram og rækta svo að viðkomandi nái að vaxa upp sem sá einstaklingur sem öll efni standa til að hann eða hún geti orðið. Það er stórt og mikið verkefni og auðvitað tekst misjafnlega til eftir efnum og aðstæðum. En það er hugsunin vegna þess að það eru réttindi hvers barns og ekki bara réttindi hvers barns heldur lögbundin réttindi hvers barns eins og þau eru skilgreind í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þátttaka fatlaðra barna á sínum forsendum, eftir því sem hentar best hverju barni í starfi og leik með öðrum börnum en ekki bara úti í sínu horni, er ekki bara þroskavænleg fyrir viðkomandi börn heldur er fátt hollara börnum en að kynnast fjölbreytileika mannlífsins, læra að takast á við hann, lifa í honum og læra að eiga í samskiptum við ólíka einstaklinga með ólíkar þarfir. Það er hins vegar annað mál hvernig okkur gengur að veita börnum okkar þá menntun sem þau eiga rétt á og er forsenda þess að hér sé gott samfélag. Samræmd próf eru ekki góð hugmynd vegna þess einfaldlega að börn eru ekki samræmd.